149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:22]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki bara sammála, ég er í raun alveg forviða á því að slík greining skuli ekki hafa farið fram. Við höfum auðvitað reynt að benda á að þetta væri raunhæfur möguleiki, að þetta væri umtalsverð hætta, en það hefur iðulega verið gert lítið úr þeim málflutningi okkar og því haldið fram að sæstrengur væri ekki á dagskrá og það myndi ekkert reyna á þetta um fyrirsjáanlega framtíð. Þó hefur verið bent á að ríkisorkufyrirtækið Landsvirkjun hefur lengi haft lagningu sæstrengs sem forgangsmál hjá sér, en svo berast fréttir frá útlöndum um að ekki sé bara til staðar þessi áhugi, það sé bara ekki búið að fullfjármagna verkefnið, heldur sé verið að undirbúa framleiðslu á kaplinum og atvinnuuppbyggingu sem af því leiði og beðið sé eftir staðfestingu breska viðskiptaráðherrans.

Að vísu voru svörin, einhver, frá stjórnarliðum á meðan þau bárust oft á þá leið að við nytum skilnings vegna þess að Miguel kommissar hafði hitt hæstv. utanríkisráðherra Íslands og viðurkennt að Ísland væri eyja og ekki tengd með sæstreng eins og sakir standa. Líka var vitnað í fundi embættismanna hjá EES-nefndinni og okkur þingmönnum sagt að hafa engar áhyggjur vegna þess að þetta tvennt sýndi fram á mjög verulegan skilning á stöðu Íslands innan Evrópusambandsins. En þá var alveg litið fram hjá því, eins og hv. þingmaður kom inn á, að einkaaðilar gætu höfðað mál. Og þar höfum við bara glænýtt dæmi.

Er hv. þingmaður sammála mér um það að kjötmálið svokallaða ætti svo sannarlega að vera okkur víti til varnaðar og það sé raunar kaldhæðnislegt (Forseti hringir.) að það mál sé fyrir í þinginu á sama tíma og reynt er að sannfæra okkur um að koma okkur í enn stærri vandræði?