149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:07]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Svarið við þessu er einfalt: Enginn stjórnarliðanna hefur beðið mig afsökunar á því. Ég lagði upp með þetta í upphafi og gerði grein fyrir mínu máli, en enginn hefur beðið mig afsökunar. Það að segja að ég hafi verið að segja ósatt er ámælisvert og það lýsir málflutningi stjórnarliða hvað þetta varðar. Það var bæði frammíkall hér í sal og auk þess átti ég orðastað við hv. þingmann og formann utanríkismálanefndar í útvarpsþætti þar sem hún sakaði mig um að fara með rangt mál. Ég er búinn að leiðrétta það og sýna fram á þessa hækkun með tölum og haldbærum rökum en enginn hefur beðið mig afsökunar og hafa þeir í raun farið undan í flæmingi. Það sýnir málflutninginn í hnotskurn, það er reynt að snúa þessu við, að Miðflokksmenn fari með rangfærslur o.s.frv. Þegar upp er staðið eru það stjórnarliðar sem fara með rangfærslurnar og ekki bara hvað varðar raforkuverðið heldur einnig þátt neytendaverndarinnar, að hún skipti svo svakalega miklu máli til að hér sé hægt að lækka verð.

Ég heyrði einn hv. þingmann sem er stuðningsaðili þessa máls halda því fram að það væri hægt að lækka rafmagnsreikninginn um allt að 30.000 kr. á ári. Þetta eru algjörlega staðlausir stafir. Miðað við það sem núna er í boði, ef farið er á síðu þar sem hægt er að skipta um orkusala, er hugsanlegt að maður nái kannski 1.000 kr. sparnaði á ári. Það er nú allur sparnaðurinn. Rangfærslurnar eru hrópandi af hálfu stjórnarliða í þessu máli.