149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[13:47]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Það er óhyggilegt en það sætir líka furðu því að gjarnan er vísað í norsk lög og umræðu um norsk frumvörp á Íslandi, enda margt líkt með stjórnkerfum landanna eða a.m.k. lagasafni. Sérstaklega á þetta við með tilliti til EES-mála þar sem Norðmenn, eins og hv. þingmaður bendir á, eru samstarfsmenn okkar. Það er því afskaplega sérkennilegt að við innleiðinguna hér skuli menn hafa kosið að líta fram hjá því hvernig haldið var utan um þetta mál í Noregi. Það á ekki hvað síst við um þessa norsku fyrirvara sem mér hefur heyrst á þeim hæstv. ráðherrum sem ég hef haft tækifæri til að spyrja um málið að kannist lítið við og innihald þeirra. Í öllu falli er ljóst að þeir hafa ekki legið fyrir sem gagn í þessu máli fyrir okkur á Alþingi Íslendinga og við þingmenn Miðflokksins þurftum raunar að leita þá uppi og þýða yfir á íslensku eftir bestu getu. Þeir voru hins vegar mjög upplýsandi um þær hættur sem Norðmenn sjá í þriðja orkupakkann og eru sem slíkir mjög sterk aðvörun til okkar.

Svo er það það sem hv. þingmaður nefnir um norska stjórnlagadómstólinn sem tekur þetta mál fyrir 23. september á þessu ári. Maður veltir fyrir sér hvort hæstv. iðnaðarráðherra hafi hugsanlega verið með það í huga þegar ráðherrann ýjaði að því að það gæti verið tilefni til að bíða með málið fram á haust. Ég veit það ekki en það er a.m.k. stórundarlegt og hreinlega óábyrgt að afgreiða þetta mál hér á meðan ekki liggur fyrir (Forseti hringir.) niðurstaða norska stjórnlagadómstólsins.