149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:12]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er ansi áleitin og góð spurning, hvort Alþingi verði þá treystandi fyrir ákvörðun um lagningu sæstrengs, og leyfi ég mér að efast um það eftir að hafa reynt að botna í því hvernig búið er um þessa innleiðingu, þingsályktunartillögur og frumvörp sem fylgja með málinu. Svo virðist sem það sé ekki algjörlega kristaltært hvernig á að framkvæma það. Ég leyfi mér líka að efast um að Alþingi hafi burði til þess þegar og ef að því kemur. Ég er í sjálfu sér ekkert á móti sæstreng, svo fremi að það sé allt á okkar forsendum, en þá þurfum við líka að standa í lappirnar og geta tekið ákvarðanir um það með hagsmuni okkar Íslendinga í fyrirrúmi. Það er okkur bráðnauðsynlegt í allri þessari auðlegð orkumála hér, eins og kom fram hjá hv. þingmanni, með vatnsafli, jarðvarma og vaxandi vindmylluvæðingu, að við ráðum yfir þeim orkumálum sjálf til eflingar landi og þjóð og getum þá, ef við viljum, selt orkuna annað en best fyndist mér að hún yrði nýtt hér heima til uppbyggingar fyrir land og þjóð, atvinnustarfsemi og annað slíkt. Þetta er hrein orka og þetta er hryggjarstykkið í okkar samfélagi, í okkar náttúru.