149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:46]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Hann spurði helst um leitina að fyrirvaranum. Menn spyrja mig þeirrar spurningar ítrekað og það er sjálfskipaður erindisrekstur, sem ég tók reyndar ekki að mér í upphafi, að fara að leita að þeim fyrirvara. Auðvitað er það ekki mitt að svara þessu, hv. þingmaður. Við spyrjum spurninga og það er stjórnarliðsins, stjórnarþingmannanna og ríkisstjórnarinnar að svara. Það er forysta ríkisstjórnarinnar sem kynnir málið varðandi þriðju orkutilskipun Evrópusambandsins, hún kynnir til leiks á hinu háa Alþingi með trommuslætti að nú sé málið leyst, menn geti lagt niður varnir, menn þurfi engar áhyggjur að hafa. Af hverju? Menn taka hattinn af og hvað er þar? Lagalegi fyrirvarinn. Svona er þetta kynnt. Lagalegi fyrirvarinn? Hér er hann, hann er hér. Síðan þegar þeir ætla að útskýra þetta verða þeir margsaga, eins og sagt er í lögreglurannsóknum. Þeir verða margsaga, menn benda í allar áttir.

Ég hef heyrt þetta áður sem hv. þingmaður víkur að, að hér hafi gefið sig fram vitni í dag, hv. þm. Þorsteinn Víglundsson, og framburður hans hafi verið á þann hátt að fyrirvarans var að leita í atvinnuveganefnd. Ég hef heyrt það áður og ég spurði sérstaklega að því í fyrirspurn í þessum ræðustól af því að það vill svo til að Miðflokkurinn á fulltrúa í atvinnuveganefnd. Ég spurði einn fulltrúa okkar þar, hv. þm. Ólaf Ísleifsson, hvort hann hefði séð þennan fyrirvara, hvort hann hefði orðið var við það að hann væri í nefndinni. Hann kannaðist ekki við það, hann væri reyndar í nefndinni og lofaði því að hann myndi leita að honum, kannski á næsta nefndarfundi og spyrjast fyrir um hvort hann væri þarna (Forseti hringir.) innan nefndarinnar.