149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:15]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt. Og þetta var einmitt það sem sá ágæti maður sem ég nefndi hér til sögunnar, Guðmundur Hörður Guðmundsson, fjallaði um í ágætri blogggrein á sínum tíma og birti svo aftur um daginn. Hann dró það fram að offjárfesting, t.d. á raforkumarkaðnum, muni ávallt leiða til þess að þeir sem síst skyldi, þ.e. heimili og fyrirtæki, greiði fyrir þá offjárfestingu. Hann dró þetta ágætlega fram.

Ég er sammála því sem kemur fram í máli hv. þingmanns að auðvitað er hættan sú að þegar hingað koma inn fjárfrekir aðilar og vilja setja upp t.d. mjög stór vindorkuver verði um offjárfestingu að ræða sem Íslendingar munu með einhverjum hætti greiða kostnaðinn af.

Það er kannski þessi áhætta sem manni sýnist beintengd innleiðingu orkupakkans þriðja núna, sem er svona viðbótaráhyggjuefni við allt hitt, við hvað málið er illa reifað, við það að fyrirvararnir eru engir, við öll varnaðarorðin frá lögfræðingunum, bætist þessi áhætta við. Þess vegna finnst mér alveg einboðið, og ég bara skil ekki fyrir mitt litla líf enn hvernig stjórnarmeirihlutinn ásamt fylgifiskum ætlar að keyra málið svo búið í gegnum þingið á engum tíma, þegar tíminn er nægur. Okkur liggur ekkert á. Þjóðin er á móti þessu að meiri hluta til. Hvers vegna skyldum við halda áfram á þessari ógæfuleið?