149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég veit að hv. þingmaður mun halda áfram að svara þessari spurningu í seinna andsvari. Er það misminni hjá mér, hv. þingmaður, að í útfærslunum á þessu samspili ACER og ESA sé orðið skal eða „shall“ notað mjög mikið, að ESA skuli gera þetta og hitt? Það bendir til þess að menn líti svo á að ACER hafi eitthvert meira vægi en ESA, eftirlitsstofnunin. Því má líka velta fyrir sér að frumkvæðið, ekki síst, eða tillögurnar að lausnum, skulu koma ekki síður frá ACER en ESA.

Mig langar reyndar að fylgja þessu eftir, herra forseti, með aukaspurningu. Hún lýtur að því að nú er boðað í fjórða orkupakkanum að hlutverk ACER-stofnunarinnar muni breytast. Ljóst er að reglurnar verða uppfærðar og það kemur líka fram að valdheimildir verði auknar.

Í ljósi Kýpurdæmisins, er þá ekki sérstakt að halda áfram með orkupakka þrjú einan og sér og reyna ekki að meta heildaráhrifin af þessum breytingum á ACER og innleiðingunni á íslenskan veruleika og taka þá upplýsta ákvörðun um hvort heildaráhrifin séu e.t.v. orðin það mikil að við viljum segja stopp núna, en ekki reyna að segja stopp síðar þegar það verður orðið illmögulegt eða ekki hægt?

Þetta eru þær vangaveltur, virðulegur forseti, sem ég hef um málið út frá Kýpurævintýrinu.