149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

losun gróðurhúsalofttegunda.

[09:54]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er jú svo að það er aðhaldskrafa á öll ráðuneyti sem kemur fram í fjármálaáætlun og var búið að koma fram þegar í vor þegar hún kom fram fyrsta sinni, þannig að það er eitthvað sem hver og einn ráðherra þarf að takast á við hjá sér. Sú leið sem ég hef ákveðið að fara er að reyna að verja loftslagsmálin eins og mögulegt er og auðvitað er það eitthvað sem er alltaf til skoðunar þegar aðhaldskrafa er uppi hvar á að láta hana koma niður.

Eitt sem hægt er að gera er að reyna að taka til í rekstri, bæði hjá stofnunum ráðuneytanna og líka hjá ráðuneytunum sjálfum, en óhjákvæmilega getur komið að því að draga þurfi úr einhverjum verkefnum eða fresta þeim og það eru allt saman atriði sem eru til skoðunar í öllum ráðuneytum núna. En ég get fullvissað hv. þingmann um það að loftslagsmálin eru efst á dagskrá þegar kemur að því að verja fjármagn og tryggja árangur, eins og hv. þingmaður nefndi áðan.

Það sem ríkisstjórnin hefur verið að gera í þeim málum er að koma hverju verkefninu á fætur öðru í vinnu, ef svo má að orði komast, sem kveðið er á um í aðgerðaáætluninni. Aðgerðaáætlunin er til endurskoðunar, eins og var boðað strax í fyrrahaust þegar hún kom fram, þar sem við erum að skoða hvar megi ganga lengra og reyna að ná enn þá meiri árangri í málaflokknum, sem er gríðarlega mikilvægur.