149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

afnám krónu á móti krónu skerðingar.

[10:01]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Eins og þingmaðurinn veit og vitnaði til er frumvarp á dagskrá síðar í dag sem miðar að því að afnema krónu á móti krónu skerðingu. Það er hárrétt sem þingmaðurinn segir, þar er verið að draga úr skerðingunum en ekki farið algerlega niður í núll hvað það snertir. Ég vil líka segja að í því frumvarpi er gríðarlega mikilvægt atriði sem lýtur að því að útreikningar frá Tryggingastofnun séu gerðir mánaðarlega en ekki á ársgrunni, sem er mjög jákvætt.

Það sem við erum að gera þarna er að á yfirstandandi ári höfum við til ráðstöfunar 2,9 milljarða kr. til að bæta kjör örorkulífeyrisþega. Það hefur auðvitað legið ljóst fyrir að við höfum verið að bíða eftir skýrslu starfshóps sem skilaði af sér og er búið að taka ákvörðun um að því verði síðan fylgt eftir með frumvarpi sem ráðgert er að verði lagt fram á næsta þingi, sem mun innleiða nýtt greiðslukerfi í almannatryggingum í samræmi við þá skýrslu sem þar var lögð fram.

Við teljum mikilvægt að þeim 2,9 milljörðum sem ráðgert er að ráðstafa til málaflokksins á yfirstandandi ári í fjárlögum sé komið strax til örorkulífeyrisþega og þeir nýttir með það að markmiði að hvetja til atvinnuþátttöku. Það er það sem verið er að hugsa með þeim breytingum sem lagðar eru til. Þau atriði sem lögð eru til og eru í frumvarpi sem verður á dagskrá síðar í dag miða að því að stíga fyrstu skrefin til að hvetja til aukinnar atvinnuþátttöku.

Samhliða því erum við að vinna frumvarp og í fjármálaáætlun gerum við ráð fyrir því að á næsta ári, eins og þingmaðurinn vitnaði til, verðum við með 1,1 milljarð, að öllu óbreyttu, til málaflokksins. Við munum áfram nýta þá fjármuni til þess að draga úr skerðingum í kerfinu og hvetja til aukinnar atvinnuþátttöku. Ég vona að ég og hv. þingmaður séum sammála um að það frumvarp sem fyrir liggur og verður rætt síðar í dag geri það svo sannarlega, hvetji til aukinnar atvinnuþátttöku (Forseti hringir.) vegna þess að dregið er úr skerðingum.