149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[22:34]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég held að það sé í raun þetta í stjórnmálum sem við erum að kljást við, að við höfum ólíka sýn á það hvaða leiðir er hægt að fara. Það er vissulega hægt að fara í einhvers konar aðgerðir, til að mynda í fjármálaáætlun, og bregðast við þessu, og síðan í fjárlögum. Þegar skakkaföll verða í atvinnulífinu eða verulegur tekjusamdráttur, snöggur, eins og við upplifum nú, framboðsskellur, er hægt að bregðast við því með tvenns konar hætti: Hægt er að hækka skatta eða skera niður útgjöld. Og þá erum við fyrst farin að ganga á grunnþjónustu. Þá erum við farin að skera niður útgjöld til að byggja upp samgöngur, menntakerfið, tilfærslukerfin okkar, sem hv. þingmaður berst hér gjarnan fyrir, að bæta kjör. Þá um leið myndum við ýkja niðursveiflur. Það viljum við ekki. Vegna þess að þá erum við farin að fara gegn grunngildum fjármálastefnu um sjálfbærni og stöðugleika. Að þessu leytinu skil ég vel umræðuna í dag sem verið hefur býsna góð, þetta er ákveðin klemma, hún er alveg viðurkennd í greinargerð með breytingum á fjármálastefnunni. Menn fara ekki svo glatt í að endurskoða og breyta fjármálastefnu. Það blasir algjörlega við og það kom ágætlega fram í ræðu hjá hv. þingmanni.

Talandi um að við hefðum getað séð þetta fyrir og að við höfum ekki búið í haginn, þá höfum við til að mynda greitt skuldir hraðar niður en skuldareglan segir til um. Við munum skila afgangi. Aðhaldsstigið hefur verið gagnrýnt, að afgangurinn hafi ekki verið nægur. Hann mun þó gera okkur kleift að halda okkur við upprunaleg áform ríkisstjórnarinnar um að byggja upp samgöngur og menntakerfi og tilfærslukerfin okkar o.s.frv. að þremur fjórðu hlutum til. Það þarf síðan 10 milljarða ráðstafanir og það er áður en (Forseti hringir.) við göngum á óvissusvigrúmið sem byggt er inn í stefnuna.