149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[22:42]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er náttúrlega nöturlegt að heyra þetta en ég held að það sé ákveðið sannleikskorn í því. Ekki nema við veitum ríkisstjórninni aðhald, málefnalegt aðhald sem hún þarf greinilega á að halda, ekki síst í málefnum sem tengjast öryrkjum og öldruðum.

Og talandi um það að fylgja eftir dómum, nýlegum dómum: Hvernig ætlar ríkisstjórnin að fylgja eftir þeim dómum sem hún hefur fengið á sig og þarf að framfylgja? Það segir svolítið mikið hvernig viðbrögð eru við slíkum dómum, en við erum búin að læra það þegar kemur að mannréttindum að þau eru ekki endilega sett í fyrsta sæti í viðbrögðum ríkisstjórnarinnar.

Það sem skiptir líka máli í því samhengi öllu er hvernig við sjáum fram á það að núna, og sem betur fer fáum við vonandi að ræða það annaðhvort í kvöld eða á morgun, krónu á móti krónu málið sem skiptir okkur gríðarlega miklu máli að nái fram að ganga. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvernig sér hún það? Er hún sannfærð um að hægt verði að fylgja því eftir miðað við það sem kemur fram í þeirri fjármálastefnu sem við erum að ræða, að þau mál verði sett á oddinn?

Síðan vil ég líka spyrja hv. þingmann hvort henni finnist það ekki sérstakt að í þessari umræðu hafa fjármálaráðherra úr Sjálfstæðisflokknum og formaður fjárlaganefndar úr Framsóknarflokknum verið ötulir við að koma upp í andsvör, og þökk sé þeim, en það hefur ekki einn þingmaður komið hingað upp frá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði. Ég hefði talið að þau myndu sæta lagi og draga fram þau málefni sem m.a. hv. þm. Inga Sæland kallar eftir; málefni fátækra, málefni öryrkja. En það kemur ekki einn þingmaður frá Vinstri grænum til að útskýra hvernig þau muni verja, í gegnum fjármálastefnuna, hag þessara viðkvæmu hópa.