149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

almenn hegningarlög o.fl.

796. mál
[16:17]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Það sem ég er að velta fyrir mér er hverjir í rauninni tapa á þessu. Nú er ágætt að minnast þess að Miðflokkurinn, ætli það hafi ekki verið hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson sem var 1. flutningsmaður að málinu, lagði einmitt til atvinnurekstrarbann í kjölfar uppákomu sem þessar eru. Maður veltir fyrir sér hverjir tapa á því. Ber ekki, eins og hv. þingmaður segir, að meta hlutina? Hvort er rétthærra eða hvort skiptir meira máli, réttur manna til að stunda atvinnu, atvinnufrelsið sem er gríðarlega mikilvægur réttur, ég vona að menn misskilji það ekki hjá mér, á móti rétti þeirra sem tapa, á móti því tjóni sem verður, hvort sem það er samfélagslegt tjón, tjón ríkissjóðs eða tjón einstaklinga sem eru í samkeppni við aðila sem sífellt stunda kennitöluflakk, sem við köllum svo? Hver er réttur þeirra sem verða fyrir tjóni, óbeinu eða beinu, þegar svona gerist kannski sí og æ? Um leið og við metum frelsi gríðarlega mikið — ein af grunnforsendum þess að við getum verið með frjálst og öflugt samfélag er að menn hafi rétt til að stunda atvinnu og rétt til að vera í félagasamtökum og það allt saman — má það samt ekki vera þannig að einstaklingar eða þeir sem bera ábyrgð á rekstri fyrirtækja geti aftur og aftur bakað jafnvel sömu aðilum tjón, sífellt meira og meira með hátterni sínu eða einhverjum glæfraskap.

Svo er það spurning hvort það hæfi hreinlega öllum að vera í fyrirtækjarekstri, hvort einhverjir eftir tvö, þrjú gjaldþrot og kennitöluflakk ættu hugsanlega að snúa sér að einhverju öðru, en það er eitthvað sem verður ekki afgreitt hér með lögum.