149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

almenn hegningarlög o.fl.

796. mál
[16:22]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég verð að játa það á mig að ég missti fram hjá mér mál sem fór hér fram umræða um áðan vegna þess að ég taldi að ekki stæði yfir þingfundur samkvæmt samkomulagi. Ég kom kl. 16, án þess að ég ætli að ræða fundarstjórn forseta vildi ég geta þess.

Ég veit að hér rétt áðan var fjallað um mál sem varðar séreignarsparnað. Það vill þannig til að blessuð ríkisstjórnin tók upp tvö, þrjú mál sem Miðflokkurinn hafði lagt fram. Þar á meðal er þetta mál um séreignarsparnaðinn, sem er náttúrlega fagnaðarefni, og síðan kom ríkisstjórnin fram með frumvarpið sem hér liggur frammi, um kennitöluflakk, sem gengur að sönnu ekki jafn langt og það frumvarp sem Miðflokkurinn lagði fram á þessu þingi. Meðal þess sem skilur þessi tvö frumvörp að er að í frumvarpi Miðflokksins var gengið út frá því að ef einstaklingur sem stjórnar eða stýrir fyrirtæki sem verður þrjú fyrirtæki, sem verða gjaldþrota á 18 mánaða tímabili, sé þeim hinum sama bannað að stýra fyrirtækjum í nokkurn tíma. Ég man að upp úr nokkrum Sjálfstæðismönnum stóð í þeirri umræðu atvinnufrelsis- og einstaklingsfrelsishugtakið og menn höfðu af þessu þungar áhyggjur, þar á meðal hæstv. forseti sem nú situr, og höfðu um þetta nokkurt mál.

Það var ekki refsigleði sem einkenndi frumvarp okkar Miðflokksmanna heldur sú alkunna staðreynd að kennitöluflakk veldur tjóni, bæði öðrum fyrirtækjum en einkum þó ríkissjóði. Það verður að segjast, best að ég endurtaki það, ég held að ég hafi sagt það þegar ég mælti fyrir frumvarpi okkar Miðflokksmanna, að einstaklingur sem missir fyrirtæki í gjaldþrot eða setur það á hausinn, hvort orðalagið sem við notum, þrisvar sinnum á 18 mánaða tímabili, er þá búinn að stýra þremur fyrirtækjum í röð sem ekki hafa lifað þrjú virðisaukaskattstímabil, herra forseti. Ég er ekki viss um að aðilar sem orðið hafa fyrir því að reka fyrirtæki, þrjú stykki, sem ekki lifa af þrjú vaskstímabil, hvert þeirra, eigi beint erindi í atvinnurekstur.

Ég man eftir því að þeir sjálfstæðisfélagar sem hér stóðu í þessari umræðu töluðu mikið um nýsköpunarfyrirtæki. Þó að öll fyrirtæki séu ný þegar þau eru stofnuð eru ekki öll fyrirtæki á Íslandi nýsköpunarfyrirtæki sem stofnuð eru. Þessi kennitöluflakksveiki er mjög algeng í veitingabransanum og það er ekki svona mikil nýsköpun í honum, ekki þannig lagað, ekki nema einhverjir menn finni upp nýja kokteila, en að öðru leyti er ekki mikil nýsköpun í þeim bransa.

Ég hefði talið æskilegra að ríkisstjórnin hefði gert mál Miðflokksins að sínu. Og svo öllu sé til skila haldið var það mál sem hafði verið endurflutt og var á sínum tíma flutt af öðrum flokki, Karli Garðarssyni og Vigdísi Hauksdóttur nokkurri, sem voru í öðrum flokki áður, alla vega annað þeirra, og fólki úr öðrum flokkum líka, ég man eftir hv. þingmönnum úr röðum Pírata og fleirum. Það var ágætisfélagsskapur um það frumvarp á sínum tíma. Engu að síður ákvað ríkisstjórnin að hlífa þeim mönnum sem eru í nýsköpunarrekstri og leyfa hinum að fljóta með og njóta vafans, þeim sem stunda það sem við köllum alvörukennitöluflakk og láta þá ekki verða fyrir óþægindum heldur njóta vafans, en ekki þá sem fyrir tjóninu verða. Ég man ekki tölurnar lengur frá því að ég flutti hitt málið á sínum tíma eða flutti framsöguna en tjón af kennitöluflakki á Íslandi nemur tugum milljarða á ári að mati færustu manna. Mig minnir að farið hafi fram skoðanakönnun meðal stjórnenda fyrirtækja þar sem mikill meiri hluti stjórnenda fyrirtækja kvað sitt fyrirtæki hafa orðið fyrir tjóni af völdum kennitöluflakks.

Ég er reyndar ekki að segja þetta bara til að vera leiðinlegur heldur til þess að draga það fram að hægt hefði verið að gera þetta mál töluvert betra, töluvert hvassara og töluvert bitmeira. En ríkisstjórnin er náttúrlega samsuða úr þremur flokkum og þröskuldurinn er hvergi hár þannig að auðvitað völdu menn varkárustu leiðina.

Í mínum huga er aðalatriðið að þetta skuli vera komið fram, það er gott. Þótt málið sé útvatnað er náttúrlega, eins og stendur í málshættinum, betra að veifa röngu tré en öngu. Þess vegna getum við alveg látið okkur duga þetta þunnildi, herra forseti, þó að hitt hefði verið betra og heilladrýgra.

Við erum hér í 2. umr. þannig að enn er tækifæri til þess að þetta mál fari til nefndar fyrir 3. umr. og menn geti tekið þetta upp og skoðað hug sinn um hvort ekki sé rétt að setja þarna inn einhver refsiákvæði um bann við fyrirtækjarekstri um einhvern tíma eftir að menn hafa rekið fyrirtæki sem orðið hafa gjaldþrota, t.d. þrisvar sinnum á 18 mánuðum, þ.e. fyrirtæki sem hvert um sig hafa ekki lifað þrjú vaskstímabil.

Ég er ekki alveg viss um að fyrirtækjarekstur liggi vel fyrir mönnum sem ekki geta rekið fyrirtæki lengur en þrjú virðisaukastattstímabil þrisvar í röð á mjög stuttum tíma, þannig að það er ekki endilega víst að við yrðum fyrir miklu tjóni þó að hugsanlega lægi einhver frumkvöðullinn óbættur hjá garði. Ég er einhvern veginn efins um að þeir væru þar hópum saman liggjandi í kantinum þó að það hefði verið gert með þeim hætti.

Að því sögðu á ég frekar von á því að styðja þetta frumvarp þó að þunnt sé vegna þess að það er ágætt fyrsta skref, herra forseti. Auðvitað trúi ég því og vil trúa því að þegar menn sjá reynsluna af því að þó séu settar einhverjar skorður við þessu athæfi sjái þeir kannski þann árangur og hugsanlega líka það sem upp á vantar, þannig að innan skamms verði tekin inn einhver refsiákvæði um að menn geti ekki stofnað fyrirtæki endalaust og látið þau falla milli skips og bryggju, samfélaginu og öðrum fyrirtækjum til tjóns.

Ég myndi helst hvetja til þess, herra forseti, að þetta mál yrði sent aftur til nefndar milli umræðna þar sem menn tækju eina lokaatlögu að því að bæta inn ákvæðum sem varða það að menn sem verða ítrekað fyrir því að reka fyrirtæki í þrot gjaldi fyrir það með einhverju rekstrarbanni í einhvern tíma. Ég myndi mæla með því að það yrði gert í þessu tilfelli, herra forseti.