149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

almenn hegningarlög o.fl.

796. mál
[16:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Mál þetta er býsna mikilvægt og eðlilegt að menn velti vöngum yfir því hvort nógu langt sé gengið. Sumir kunna að segja að það sé of langt gengið og allt það. Það er bara eðlilegt og alveg réttlætanlegt að menn hafi mismunandi sjónarmið uppi eða mismunandi skoðanir á þeim málum eins og öllum öðrum. Allar skoðanir eiga að sjálfsögðu rétt á sér, hvort sem okkur líkar við þær eða ekki.

Hér er verið að leggja til breytingar á almennum hegningarlögum, ásamt lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Fram kemur að frumvarpið sé liður í baráttu gegn kennitöluflakki og að undirbúningur frekari aðgerða standi yfir.

Þá kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að stefnt sé að framlagningu frumvarps til laga um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti á komandi haustþingi. Allt er þetta mjög jákvætt, að verið sé að taka fleiri skref í þá átt. Unnið er eftir tillögum sem komu frá Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandi Íslands. Það er grunnurinn að þessum tillögum ef ég hef skilið þetta allt rétt.

Hér hafa farið fram ágætisumræður um það hversu langt á að ganga þó að gjarnan hefðu fleiri skoðanir mátt koma fram. Ég tek undir þær áhyggjur að ekki sé gengið nógu langt, að ganga megi enn þá lengra. Ég geri mér líka grein fyrir því að millivegurinn er vandfundinn, hvenær við viljum refsa, ef við notum það orð, eða hvenær við viljum reyna að takmarka tjón sem lögaðilar, einstaklingar, ríki eða sjóðir geta orðið fyrir þegar fyrirtæki eða einstaklingar fara í þrot aftur og aftur, ef það má orða það þannig. Á sama tíma þurfum við að reyna að virða frelsi einstaklingsins til atvinnu, að stofna fyrirtæki. Það er vont ef við þróum samfélag okkar í þá átt að það dragi úr einstaklingum og mönnum að vilja gera slíkt en einhvern veginn verðum við að finna þennan ballans þarna á milli. Kannski er lausnin í tillögum sem Miðflokkurinn flutti á sínum tíma, 1. flutningsmaður var hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson, þ.e. að miða við þrisvar á 18 mánaða tímabili, kannski er eitthvað annað er betra. Það þarf að ræða. Hins vegar er óeðlilegt ef við tökum ekki af skarið með það að menn geti ekki gert þetta aftur og aftur. Ég ítreka að það þarf að sjálfsögðu að finna einhvern milliveg.

Síðan ætla ég að gera athugasemd við þær breytingar sem verið er að gera á frumvarpinu. Það kemur fram í nefndarálitinu að skattrannsóknarstjóri hafi bent á muninn á þeim lífeyrissjóðsiðgjöldum sem launagreiðandi heldur eftir, þ.e. því sem starfsmaðurinn greiðir í lífeyrissjóð, og svo mótframlagi launagreiðandas. Þarna vill skattrannsóknastjóri, eins og ég hef skilið þetta, gera greinarmun á og nefndin virðist ætla að fallast á það með breytingartillögunni. Mér finnst það óþarfi vegna þess að það eru í rauninni samningsbundin réttindi að launagreiðandinn standi skil á og greiði þetta mótframlag. Auðvitað er aðeins blæbrigðamunur á því að standa skil á því sem launagreiðandinn heldur eftir fyrir hönd einstaklingsins, auðvitað þarf að standa skil á því, en þarna er að mínu viti líka um réttindi að ræða, eign í sjálfu sér, sem launþeginn gerir samning um og gerir ráð fyrir að fá. Hann greiðir í lífeyrissjóð framlag sitt í trausti þess að launagreiðandinn greiði á móti það framlag sem um er samið. Ég held því að það sé í sjálfu sér ekki mikill munur á þessu og hefði talið að þetta ætti að vera óbreytt í frumvarpinu. Í það minnsta hlakka ég til að heyra betri rök fyrir því af hverju það er ekki.

Ég held að þetta eigi að standa jafnfætis. Auðvitað er það þannig að samkvæmt lögum í dag er mismunandi túlkun á hvoru tveggja. Mig minnir að talað sé um að annað sé fjársvik en að um hitt gildi annað. Ég horfi á þetta þannig að þetta séu hvort tveggja réttindi eða peningaeign, eða hvað á að kalla það, sem búið er að semja um að skili sér með ákveðnum hætti. Það getur vel að það þurfi að skýra það betur.

Ég taldi að þetta mál væri til að setja það á jafnan stað en málið er klárlega til bóta. Um það held ég að við deilum ekki. Það má ganga lengra og óhætt að fagna því að það margkemur fram í nefndarálitinu að ætlunin sé einmitt að skoða frekari aðgerðir, þróa þetta mál áfram og hvort sem það verður hlustað á nákvæmlega það sem við höfum haft fram að færa eða ekki er til bóta að það á ekki að segja staðar numið. Ég ítreka að allt sem við gerum verður að sjálfsögðu að miða að því að við drögum ekki úr vilja einstaklinga til að skapa sér atvinnu og tækifæri.