149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

almenn hegningarlög o.fl.

796. mál
[16:52]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir prýðisgóða ræðu. Ég get ekki annað en sagt að ég er sammála eiginlega langflestu sem kom fram hjá hv. þingmanni, ekki síst því að þetta sé vandmeðfarið. Ég held að við viljum öll ná í þrjótana ef ég má orða það þannig. Spurningin er hvernig, hvar þeir eru og hversu stór hópur þetta er. Á sama tíma er maður hugsi yfir því sem hv. þingmaður sagði í byrjun sinnar ræðu þegar hann talaði um heilbrigða samkeppni. Fyrirtæki A og B eru í sama rekstri, B hefur alltaf boðið sína þjónustu og sínar vörur örlítið ódýrara en A. B fer á hausinn og það er stofnuð nýtt fyrirtæki á nýrri kennitölu, BB, sem selur áfram vörur og þjónustu langt undir verði A. Það setur A í mikinn vanda vegna þess að hann fær ekki það sem hann þarf fyrir sína þjónustu því að hann þarf að keppa við BB. BB fer líka á hausinn. A heldur að nú séu góðir tímar, að hann geti kannski verðlagt sína þjónustu eins og vera ber en þá kemur nýja fyrirtækið BBB, aftur sami aðili og mögulega einhverjir nýir viðskiptamenn með honum.

Ég held að hv. þingmaður hafi verið að vísa til þessa líka, að þarna er trúlega og vonandi bara lítill hópur sem stundar þessa háttsemi og það skemmir einmitt samkeppnina. Þetta skemmir frelsið sem okkur finnst svo mikilvægt á atvinnumarkaðnum, þ.e. að einstaklingur, hvort sem það er í nýsköpun, einhver frumkvöðull eða einhvern sem fer í gamlan og þekktan bissness, geti gengið að því eiginlega sem vísu að það geti ekki alltaf einhver komið og bankað í bakið á honum og kroppað úr honum smám saman. (Forseti hringir.) Það getur vel verið að sú lausn sem við höfum talað fyrir hér sé ekki sú allra besta en finnum þá aðra lausn.