149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

málefni SÁÁ.

[10:44]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og tek undir það sem kemur fram í máli þingmannsins um að við getum sannarlega fagnað því að dauðsföllum vegna ofneyslu lyfseðilsskyldra lyfja hefur fækkað um helming það sem af er ári miðað við sama tíma í fyrra. Það er mat embættisins og ekki síður forstjóra SÁÁ að aukin vitundarvakning um skaðsemina hljóti að hafa haft áhrif auk þess sem hún nefnir sérstakar aðgerðir heilbrigðisráðuneytisins sem lúta að breyttu reglugerðarumhverfi varðandi ávísun þessara lyfja. En mikilvægast af öllu er vitundarvakning meðal almennings og auðvitað líka heilbrigðisstétta. Ég fagna því sérstaklega að þarna sjáum við beinlínis á tölum að ótímabærum dauðsföllum fækkar. Það er það sem við hv. þingmaður erum sammála um að sé ólíðandi annað en að takast á við af fullum krafti og það hef ég gert og vil gera áfram.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um þær 50 milljónir sem enn hefur ekki verið samið um á yfirstandandi ári og hv. fjárlaganefnd eyrnamerkti sérstaklega samningum við SÁÁ í samræmi við stefnu heilbrigðisráðuneytisins í þessum málaflokki. Það er ánægjulegt að segja frá því að ég hef skrifað bréf til Sjúkratrygginga Íslands þar sem ég hef lagt áherslu á að það sé tekið til við samninga um þessar 50 milljónir eins fljótt og nokkurs er kostur. Ég hef auk þess átt fund með forystu SÁÁ um þessi mál og raunar fleiri sem lúta að snertiflötum milli ráðuneytisins og SÁÁ og Sjúkrahússins Vogs. Þar hafði SÁÁ uppi ákveðnar hugmyndir um það hvernig þessir fjármunir mættu nýtast sem best fyrir viðkvæmustu hópana sem SÁÁ hefur verið að sinna og ég tók þeirri málaleitan vel. En verkefnið er hjá Sjúkratryggingum Íslands og ég vonast til þess að við sjáum afrakstur þessa samstarfs hið fyrsta.