149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða.

416. mál
[14:34]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér breytingartillögu við frumvarp til laga um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða við 3. umr. Þetta geri ég sem framsögumaður málsins en um er að ræða tvær breytingar, lagatæknilegs eðlis. Annars vegar er um breytingu á gildistökuákvæðinu að ræða og með þeirri breytingu er ætlunin að lögin verði skýrari og skylda ráðherra til þess að gegna þeim skyldum sem þar er kveðið á um verði skýrari sem og birting laganna skýrari.

Ég les bara upp þessa breytingu:

„Þrátt fyrir ákvæði 29. gr. skal ráðherra tímanlega fyrir 1. september 2020 birta skrá yfir rekstraraðila nauðsynlegrar þjónustu í samræmi við 3. gr.“

Skylda ráðherra er skýrð. Hins vegar:

„4. Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðist svo:

Þrátt fyrir ákvæði 29. gr. skal ráðherra þegar hefja vinnu við gerð stefnu um net- og upplýsingaöryggi samkvæmt 1. mgr. 4. gr. og skipa netöryggisráð í samræmi við 2. mgr. 4. gr.“

Hins vegar er um að ræða tillögu um breytingu á 23. gr. vegna endurtekningar í frumvarpinu. Þegar frumvarpið var lesið yfir kom fram að þar voru tvítekin ákveðin atriði sem reyndist óþarft. Ég ítreka að breytingarnar eru lagatæknilegs eðlis og breyta engu um efni frumvarpsins eða breytingartillögu nefndarinnar að öðru leyti. Ég legg til að tillagan verði samþykkt.