149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[18:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir svörin. Ég myndi gjarnan vilja fá í seinna andsvari nákvæmlega hvaða skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum hann er að vísa í vegna þess að í glænýrri grein í World Economic Forum frá því í janúar á þessu ári sýna nýjustu tölur um útblástur landa að Kína trónir efst á toppnum með 29% meiri útblástur koltvísýrings í heiminum, ef frá eru talin losun frá flugi og skipaumferð. Þar á eftir, annað mest mengandi landið, eru Bandaríkin, sem eru enn þá ábyrg fyrir 15% af útblæstri koltvísýrings. Þriðja landi í röðinni er Indland sem er ábyrgt fyrir 7% af mengandi útblæstri. Önnur lönd koma þar á eftir með um 2% af útblæstri á heimsvísu. Það eru Rússland, Japan og Þýskaland.

Þannig að ég klóra mér enn þá svolítið í hausnum yfir þeirri fullyrðingu hv. þingmannsins um að vel hafi gengið hjá Bandaríkjunum (Forseti hringir.) að draga úr losun vegna þess að staðreyndin er Bandaríkin eru ekki aðilar að Parísarsamkomulaginu (Forseti hringir.) og yfirlýst stefna núverandi Bandaríkjaforseta sýnir svart á hvítu (Forseti hringir.) að á þeim bæ er ekki mikill vilji til þess að standast alþjóðlegar skuldbindingar þegar kemur að loftslagsmálum.