149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[18:33]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt því nú ekki fram að Bandaríkin væru hætt að losa gróðurhúsalofttegundir heldur að dregið hefði úr losun þar frá því þegar hún var í hámarki. Ég lýsti því að það væri ekki hvað síst vegna þess að menn væru farnir að nýta gas í auknum mæli frekar en kol við að framleiða orku.

En það er rétt sem hv. þingmaður segir að Kína er komið fram úr Bandaríkjunum og styttist væntanlega í að Indland geri það líka, svoleiðis að þar er þetta vaxandi vandamál. En ég geri ekkert lítið úr því að Bandaríkin, þetta mikla iðnveldi, losa að sjálfsögðu gríðarlega mikið af gróðurhúsalofttegundum og ég ætla ekki að verja loftslagsstefnu ríkisstjórnar Bandaríkjanna. Ég er eingöngu að benda á þá staðreynd að það hefur dregið úr losun Bandaríkjanna, þrátt fyrir að þeir séu ekki aðilar að Parísarsamkomulaginu, ekki hvað síst út frá því að þeir nota í auknum mæli gas frekar en kol. Það sýnir að gasbruni á kostnað kolabruna virkar.