149. löggjafarþing — 121. fundur,  12. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[16:46]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða nokkuð stórt mál sem er breytingar á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi. Ég vil byrja á því að taka undir með kollegum mínum sem hafa komið hér upp með þakkir til þeirra sem starfa í atvinnuveganefnd og hafa komið að þessu máli. Það hefur verið af fullum heilindum sem allir hafa reynt að koma að þessu máli og við höfum öll reynt að stefna í þá átt að styrkja lagaumhverfi þessarar atvinnugreinar sem á að byggjast upp og erum öll sammála um að gera það sem best til þess að hún fái að vaxa og dafna og skila sínu í þjóðarbúið. Okkur greinir kannski aðeins á um hvert við eigum að fara en það skiptir miklu máli að við höfum verið sammála um það — og ég held að við náum ásættanlegri niðurstöðu miðað við þetta — að tryggja að vel verði frá þessu gengið. Því að ef við náum þeirri niðurstöðu er það fyrir samfélögin, umhverfið og atvinnulífið sem við getum byggt upp til framtíðar svo að hvað rekist ekki á annað. Þetta skiptir allt máli.

Auðvitað eru skiptar skoðanir um fiskeldið. Við höfum nú orðið vör við að margir eru hræddir, óttast að sjókvíaeldi í opnum kvíum sé hættulegt fyrir umhverfið og villta laxastofninn. Það hafa líka heyrst raddir um að ekki sé hægt að kalla þetta galopnar kvíar því að þetta er orðið allt öðruvísi en var. Við erum að fara inn í þriðju og fjórðu kynslóð fiskeldis og höfum brennt okkur á fyrri kynslóðum. Nú ætlum við að gera þetta betur og þá erum við líka að byggja á reynslunni og þeirri tækni sem á eftir að koma og hefur komið fram. Ég held að það skipti gríðarlega miklu máli í þessu sambandi að taka undir að við séum að hlúa að greininni og gera ráð fyrir því að allar tæknibreytingar og þekking í þessum málum komi til með að bæta rekstrarumhverfið þannig að öllum líki. Það er það sem skiptir máli. Enda gerum við ráð fyrir því í þessu frumvarpi að lögin verði tekin aftur upp og skoðuð eigi síðar en 1. maí 2024. Það getur ýmislegt gerst þangað til. Einnig erum við þá aðeins farin að sjá fyrir hvaða áhrif þetta hefur.

Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kom inn á að í upphafi hefði ekki verið nægjanlega tekið á áhættumati og ekki nægilega undir það tekið. Ég ætla kannski aðeins að mótmæla því og benda á að það hefur nú verið meginlínan að reyna að byggja frekar undir áhættumatið en að taka það út og ég held að það skipti máli. Eitt af veigamestu atriðunum í því sambandi eru mótvægisaðgerðirnar sem ég tel vera lykilatriði. Þar er verið að lögfesta það inn í áhættumatið að tekið verði tillit til mótvægisaðgerða. Þeim er skipt í tvennt. Það er í fyrsta lagi það sem snýr að eldiskvíunum, að áhættumat taki tillit til þeirra aðgerða sem rekstraraðilar beita í því sambandi, eins og ljósastýringu, stærri seiðasleppingu og minni möskva. Þetta á að hindra að það verði strok. En ef af stroki verður myndum við beita mótvægisaðgerðum. Við myndum reyna að ná í fiskinn sem færi þá væntanlega upp í árnar. Og þetta eru bara aðferðir sem beitt er í Noregi og þykja sjálfsagðar. Ég tel að þetta sé lykilatriði til að við getum unnið í sátt og verndað villta laxastofninn því að við erum á því að það skuli gert. Við erum þá með þessum mótvægisaðgerðum að stuðla að umhverfisvænni rekstri og betri sátt við aðra hagsmuni, tel ég vera.

Síðan er annað, heilbrigðismálin. Við viljum undirstrika þau og ég held að það sé sameiginlegur vilji allra sem að þessu koma, hvort sem það eru rekstrarfyrirtækin eða samfélögin. Heilbrigði dýra og umhverfis er undirstaða þess að hægt verði að byggja upp starfsemina til sjálfbærni sem byggir á vistfræðilegri, félagslegri og efnahagslegri stoð. Til þess atriðis er horft í nýjum lögum með nýjum ákvæðum en þó er það meitlað í stein. Þá verður hið opinbera að fylgjast með þróun greinarinnar og tryggja aðhald og eftirlit, að farið verði af ýtrustu nærgætni í starfsemina. Ég held að þetta sé mikilvægt atriði, að huga að heilbrigðismálunum, sem eru þá t.d. lúsafaraldur eða lúsin á fiskinum og eins aðrir sjúkdómar; að við getum beitt umhverfisvænum aðferðum og tryggt að alltaf verði horft til þess að við séum að vernda umhverfið sem við erum að nýta.

Það er margt sem við erum að reyna að hugsa út í í þessu sambandi og vil ég þá nefna, af því að það hefur komið nokkrum sinnum fram og framsögumaður málsins, hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé, kom inn á það, að við viljum taka aftur inn í nefndina ákvæði í sambandi við leyfisveitingarnar. Við vildum draga þarna skýra línu þar sem við gætum gengið þannig frá að við værum að setja einhverjar hurðir eða girðingar miðað við gamla frumvarpið, miðað við gömlu lögin og aftur hin nýju, og allri óvissu verði eytt um hvaða leyfisumsóknir séu inni samkvæmt því gamla og hverjar þurfi þá að taka tillit til nýrra laga.

Þegar nefndarálitið var birt var svolítið óvissu undirorpið hvaða umsóknir væru inni. Og ég vil ekki taka undir orð hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur þegar hún talaði um að við værum að draga hagsmuni einhverra aðila þarna inn. Við erum bara að horfa til þess að leyfum sem eru komin mjög langt í ferlinu, sama hvað fyrirtækin heita sem standa að þeim, sé ekki kippt út. Við erum jafnvel að tala um upp undir átta ára ferli sem við værum þá að kippa úr sambandi og byrja á að nýju samkvæmt nýja frumvarpinu. Þetta er kannski ekki það sem við hugsuðum og vildum draga skýra línu en hún er kannski nokkuð óljós. Ég vona að hægt verði að finna niðurstöðu sem við getum öll sætt okkur við í þessu sambandi. Það skiptir gríðarlega miklu máli að við séum nokkuð skýr í þessu og að við skilum frumvarpinu ekki þannig frá okkur að áfram ríki sú óvissa sem hefur ríkt um þessi mál.

Ég held að það sé undirstaðan sem allir þurfa, bæði samfélögin og fyrirtækin, að fólk viti að hverju það gangi. Í þessu sambandi þarf þetta líka að vera mjög skýrt, eins og ég sagði, og ég held að það sé meining okkar að við komum þessu þannig áfram. Hér hefur verið rætt um hver ávinningurinn sé af fiskeldinu og ég held að það sé bara mjög stórt mál. Ég held að þetta sé með stærri málum sem við erum að afgreiða út af þingi og úr atvinnuveganefnd. Þetta skiptir okkur öll máli; hvert atriði skiptir máli í þessu sambandi.

Ég er hér með nokkra punkta sem hafa verið teknir saman um fiskeldi á Vestfjörðum. Við erum að tala um að við séum með áhættumat sem er til bráðabirgða og burðarþolsmetin svæði upp á 80.000 tonn. En við erum ekki komin með áhættumat alveg að því. Í því sambandi má segja: Ef við værum með 70.000 tonna fiskeldi á Vestfjörðum gæti það skilað um 65 milljarða heildarverðmætum, sem þýddi 730 bein störf og 420 afleidd. Árlegar skatttekjur af þessu yrðu 2,8 milljarðar og við myndum sjá kannski 700 milljónir renna til sveitarfélaganna.

Þetta er stórt mál. Ég var á fundi nú í morgun þar sem Vestfjarðastofa kynnti ákveðnar sviðsmyndir í framtíð Vestfjarða. Þar var komið inn á þetta mál. Með því að gera ekkert myndi þetta kannski malla áfram í einhverri óvissu og óvissan er það versta sem maður býr við. Þess vegna þurfum við að vera svolítið skýr í þessu. Ef við gefum ákveðnar vísbendingar, stöndum við okkar orð, stöndum við okkar stefnu, gætum við séð þessa mynd svolítið skýra. Þá erum við að tala um kannski eftir 15 ár. Þá erum við að sjá að við meintum það sem við sögðum með því að byggja undir þessa starfsemi og þá erum við að gera þennan landsfjórðung sjálfbæran og óvissunni væri eytt.

Það er fleira sem ég vildi nefna í þessu sambandi og ég vil kannski taka undir umsögn sem kom frá umhverfis- og samgöngunefnd um frumvarpið, alveg ágætisumsögn, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Í búgrein á borð við fiskeldi er megináskorunin fólgin í því að finna og ástunda jafnvægi milli náttúrunytja og náttúruverndar. Fiskeldi í opnum sjókvíum er háð mörgum umhverfisþáttum og veldur álagi á þá, bæði nær og fjær. Að mati nefndarinnar er eðlilegt að gera kröfu um að slíkt fiskeldi sé sem sjálfbærast, og að það þróist jafnt og þétt til rekjanlegrar sjálfbærni.“

Hér er umhverfisnefnd að taka undir þá vinnu sem hefur farið fram í atvinnuveganefnd og við vonumst til að við getum skilað, þannig að hægt sé að vinna eftir til uppbyggingar en ekki til stöðvunar. Ég var kannski búin að koma inn á þá þætti sem ég vildi undirstrika í þessu máli en það er alltaf spurning um að taka stefnu og halda henni þannig að við festum í sessi, tökum undir hvað þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir samfélögin og á svæðunum í nærsamfélaginu, eins og á Vestfjörðum og Austfjörðum. Það skiptir gríðarlega miklu máli þar. Bent var á það á fundinum í morgun hjá Vestfjarðastofu að samfélagið og Vestfirðir væru ekki einungis í samkeppni við aðra landshluta um fólk og samfélög og umgerð heldur í samkeppni við allan heiminn. Það er það sem skiptir máli. Að við getum staðið upp frá vinnu við frumvarpið og skilað því þannig frá okkur að við séum að gera þau samfélög samkeppnishæfari á heimsvísu. Þá held ég að tilganginum sé náð.