149. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[16:23]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum atkvæði um frumvarp umhverfisráðherra um breytingu á lögum um loftslagsmál frá árinu 2012. Sem flutningsmaður nefndarálits málsins úr umhverfis- og samgöngunefnd vil ég fagna því að við greiðum atkvæði um þetta mál í dag. Það voru gerðar ýmsar breytingartillögur á málinu í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Ég fagna einfaldlega þeim árangri sem náðist í þeirri hv. nefnd og má nefna þær helstar breytingartillögur að umhverfisráðherra verði skylt að flytja Alþingi reglulega skýrslu um stöðu loftslagsmála, fulltrúi fjölmennustu samtaka launafólks muni sitja í loftslagsráði og síðast en ekki síst náðist sátt um að skylda sveitarfélög landsins til að setja sér loftslagsstefnu. Það er mjög mikilvægt.

Frumvarpið er í grunninn gott og með þessum breytingum til bóta er hér um að ræða eitt af mörgum jákvæðum og nauðsynlegum skrefum til að við leggjumst öll sem eitt á það að sporna við mestu vá sem að okkur steðjar, sem er loftslagsbreytingar, og ég hvet alla þingmenn til að veita þessu máli stuðning sinn.