149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[11:35]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef farið nokkuð vel yfir hæstaréttardóma sem hafa fallið um einmitt sjávarútveginn. Það er alveg ljóst að rauði þráðurinn í þessum lykildómum, fordæmum fyrir okkur sem erum að reyna að móta og koma að stjórn fiskveiða, er að ríkisvaldið, löggjafinn, hefur alltaf heimildir til að breyta lögum um stjórn fiskveiða, en hann verður að gæta meðalhófs. Það er eðlilega ekki hægt að svipta útgerðirnar á einu bretti öllum heimildum og innkalla þær á einu bretti en það er hægt að gera það á ákveðnum tíma. Það er löggjafans að finna út úr því. Eru það þrjú ár, fimm ár eða tvö ár? Það er hóflegur tími sem hægt er að miða við. En löggjafinn hefur allar heimildir til þess að breyta kerfinu eins og hann telur hverju sinni og vonandi höfum við það alltaf í huga að það eru fyrst og fremst hagsmunir þjóðarinnar sem við þurfum að gæta annars vegar og hins vegar arðbærni sjávarútvegs og sjálfbærni.

Við höfum allar þessar heimildir og um það stendur í raun styrinn, að Sjálfstæðismenn og hinir ríkisstjórnarflokkarnir og Miðflokkurinn vilja ekki breyta neinu. Þau vilja miklu frekar fara þessa leið sem er verið að fara með makrílinn hér, að festa í sessi óréttlæti. Það er það sem við í Viðreisn höfum verið að segja, að hluta til sammála því sem Samfylkingin hefur verið að segja, að annars vegar sé lykilatriði tímabundnir samningar til að tryggja að um er að ræða réttindi þjóðarinnar og það er okkar að ákvarða hvernig við höfum það.

Síðan er það leiðin að því að ná gjaldinu, réttmætu og eðlilegu gjaldi. Við höfum kallað það markaðsleið. Það er líka hægt að kalla það uppboðsleið af því að við teljum einfaldlega að markaðurinn sé betur til þess fallinn en stjórnmálamennirnir hér að ákveða hvað er sanngjarnt gjald. Við erum búin að upplifa það aftur og aftur að ef nægilega fast er togað í ákveðna strengi innan ríkisstjórnarflokkanna fara menn af stað og þá fara menn ekki í eðlilega og sanngjarna gjaldtöku heldur fara þeir í að snarlækka gjöld á útgerð til að friðþægja fólk í greininni.