149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[12:06]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Hárrétt. Við þurfum líka sem löggjafi að passa upp á það að lagaramminn sé þannig að fyrirtæki geti haldið áfram og nýtt hráefni sem best. Ég held að við höfum búið til þannig kerfi sem hefur frekar ýtt undir betri nýtingu á hráefni en sóun. Við höfum upplifað hjá öðrum fiskveiðiþjóðum að þær hafa farið sóunarleiðina og eru í ríkara mæli að líta einmitt til okkar varðandi fiskveiðistjórnarkerfi.

Ég hef margsagt í þessum ræðustól að allir flokkar til vinstri eða hægri hafa komið að því að byggja upp nokkuð gott kerfi, annars vegar komið með kvótasetninguna 1983 og hins vegar 1990 með frjálsa framsalið sem var gert í tíð vinstri stjórnar. Ég veit að það var mjög gagnrýnt hjá vinstri öflunum á sínum tíma en það var engu að síður gert. Öll þessi skref urðu til þess að bæta nýtingu á hráefni og auka verðmæti afurðanna. Allt þetta skiptir máli og ég þakka hv. þingmanni fyrir það að hafa einmitt nefnt EES-samninginn sem skiptir okkur gríðarlega miklu máli, ýtti undir að við opnuðum markaði fyrir vöruna okkar og við fengum meiri verðmæti fyrir fiskinn í sjónum. Við erum að nýta núna meira en 80% af hverju kílói af þorski sem kemur inn í landið en á árum áður. Það voru bara 40–50%. Kerfið sjálft hefur útbúið það að við fáum meira fyrir afurðina.

Ég vil líka þakka hv. þingmanni fyrir að passa upp á það að tala eins og hann hefur verið að gera í þessari pontu en vil um leið spyrja hvort hann sé þá sammála því sem hefur komið fram í máli hv. þingmanna frá Sjálfstæðisflokknum um að erfitt sé að tala um að fiskurinn í sjónum sé ekki sameign þjóðarinnar, það sé bara ekki hægt að tala þannig eins og þeir hafa verið að ræða. Er hann sammála þeirri nálgun sem kemur fram í máli þingmanna Sjálfstæðisflokksins?