149. löggjafarþing — 126. fundur,  20. júní 2019.

mannanöfn.

9. mál
[01:06]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég verð að segja eins og er að ég óttast pínulítið að breytingartillögur minni hlutans … (Forseti hringir.)

(Forseti (SJS): Forseti biður um þögn á fundinum og biður hv. þingmenn að halda sig í salnum. Atkvæðagreiðsla stendur yfir.)

Virðulegur forseti. Ég óttast svolítið að hv. þingmenn hafi misst af eða muni missa af breytingartillögu minni hlutans. Þar er komið til móts við allt sem er gagnrýnt við frumvarpið í nefndaráliti meiri hlutans, t.d. ráðgjöf um nafngift. Það fer til Árnastofnunar. Um rithátt og slíkt verður kveðið á í reglugerð. Hvað varðar spurninguna um það hvort fólk geti heitið stjörnumerki eða spurningarmerki eða eitthvað slíkt er komið til móts við það í breytingartillögum minni hlutans. Hvað varðar röð nafna, millinöfn, mannanafnaskrá, amaákvæði fyrir börn er komið til móts við þessi atriði.

Mig langaði til að nefna það sérstaklega vegna þess að mér finnst nefndarálit meiri hlutans bera þess merki að það hafi fallið milli skips og bryggju. Ég óttast svolítið að hv. þingmenn kynni sér ekki minnihlutaálitið nógu vel eða breytingartillögur með því. Þær eru góðar og ég vona að hv. þingmenn greiði atkvæði með breytingartillögunum (Forseti hringir.) og a.m.k. ekki gegn ákvæðum frumvarpsins vegna þess að mér er mikið í mun að breytingarnar fái að innleiðast í frumvarpið sjálft þannig að þegar það komi til 3. umr. og atkvæðagreiðslu þar geti þingmenn greitt atkvæði í samræmi við frumvarpið eins og það er hugsað frá flutningsmönnum sjálfum.