149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:23]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða orkupakkann og orkan sem við höfum notað í að ræða orkupakkann er gígantísk. Allur þessi blaðastafli sem hefur komið og kostnaðurinn út af málinu — ég veit ekki hvort það hefur verið reiknað út en sé að bæði tímanum og orkunni hefði betur verið varið í annað.

Í lið 5.3, reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins, EB/715/2009, segir við neðstu greinaskil:

„Með aðlögunartexta í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar er Ísland undanþegið framangreindum gerðum þar sem ekki er markaður fyrir jarðgas. Verður því ekki fjallað nánar um þessa gerð hér.“

Af hverju vorum við ekki með rafmagnið þarna inni? Þá væri þetta bara búið. Þá þyrftum við ekki að vera að ræða þetta. Það einfaldasta í þessu öllu saman hefði verið að setja slíka klásúlu þarna inn. Þá stæðum við ekki hér að rífast. Þá væri málið búið. Þess vegna spyr ég ráðherrann: Hvers vegna í ósköpunum var rafmagnið ekki þarna inni?