149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:57]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi það síðastnefnda, ég var auðvitað að tala um almenna umræðu í landinu. Ég ætla ekki að fara ofan í það hér hverjir beittu hálfsannleik, hverjir beittu blekkingum og hverju beinlínis lugu. Hins vegar er það þannig að ég valdi ekki þá álitsgjafa sem unnu álit fyrir ráðuneytin. Ég hef hins vegar hlustað á þau öll og það eru enginn hálfsannleikur sem felst í því að hlusta á málflutning og taka síðan afstöðu með þeim rökum sem eru mest sannfærandi, ekki síst þegar mikill meiri hluti þeirra sem tjá sig nota þau rök. Það er hins vegar hálfsannleikur að grípa í eitt álit og vitna í einstök orð í álitsgerð en vera svo ósammála niðurstöðunni. Berja svo hausnum við stein, jafnvel þó að einstaklingarnir hafi svo komið með yfirlýsingu sem er býsna skýr, og halda áfram að þrástagast á því og nota til grundvallar málflutningi sínum.

Ég var ekki á fundi utanríkismálanefndar þegar Arnar Þór Jónsson héraðsdómari kom fyrir nefndina. Ég hef hins vegar lesið ýmislegt af því sem hann segir. Hvað varðar álit hans að það eigi að senda þetta fyrir sameiginlegu EES-nefndina tek ég einfaldlega meira mark á t.d. orðum Baudenbachers sem kom fyrir nefndina og varpaði ljósi á bæði pólitíska hlið málsins en einnig lögfræðilega. Hann benti á, af langri reynslu sinni sem dómari, tímalínuna, hvernig Ísland hefði hagað málflutningi sínum áður fyrir nefndinni (Forseti hringir.) og hvað gerðist ef Ísland kæmi mörgum árum síðar með allt aðrar kröfur, að það yrði litið til þess og yrði ekki til þess að styrkja okkar málstað.