149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:04]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Við eyðum núna tveimur vinnudögum þingmanna í að bæta við vel á annað hundrað klukkustundir af endurtekningum um þriðja orkupakkann. Gott og vel, um það var samið til að leikhlé yrði á sínum tíma, því að ég hef litið á mikið af þessum málatilbúnaði Miðflokksins sem leikþátt. En alvarlegi þátturinn í því er sá að mér finnst hann bera vitni um ákveðna hæðni gegn lýðræði og gegn þinginu, nokkuð sem við höfum aldrei séð áður og munum væntanlega aldrei sjá aftur. Tími okkar og allar klukkustundirnar sem samræður Miðflokksmanna stóðu — þingbundið lýðræði landsins, hversu gallað sem það kann að vera, er dýrmætt og það á ekki að vera einhvers konar leiksvið fáránleikans. Það er vissulega eðlilegt að okkur á þingi greini á um ótal margt en samfélagið og það sem ég kalla siðræn gildi krefjast skilvirkni og virðingu fyrir þeim vinnu- og samskiptareglum sem við höfum samþykkt.

Þá er spurningin: Hefur eitthvað nýtt komið fram? Menn keppast hér við að segja: Nei, það er svo sem ekki margt, kannski ekki neitt sem hefur komið fram í raun sem breytir afstöðu okkar til þriðja orkupakkans. Ég tek undir það. Ég sé það ekki. En samkomulag um stutt sumarþing stendur, undirskrifað af öllum þátttakendum. Hér stend ég því og get ekki annað.

Herra forseti. Ég sný mér þá enn einu sinni að málefnum þriðja orkupakkans, staðreyndum sem búið er að snúa út úr, að mínu mati, oft og tíðum eða horfa fram hjá. Í staðinn koma gjarnan lítt eða ekki rökstuddar fullyrðingar jafnt um innihald þriðja orkupakkans sem áhrif. Það koma fram spádómar og óskyldar afleiður.

Ég nefndi áðan málflutning gegn Belgíu. Innihald hans á ekkert skylt við það sem við erum að ræða um hér og er hreinn og klár tilbúningur. „Orkusamband Evrópu“ stendur framan á einhverju plaggi sem ég sá. Hvað er það? Með stórum staf, Orkusamband Evrópu. Þetta er allt rammað inn í langt mál um hættur og áhættu, sviðsmyndir um ófullvalda Ísland og erlend yfirráð og endalok íslenskrar stjórnunar á orkuauðlindunum, jafnvel líka öðrum vatnsréttindum.

Ég er jafnt varðmaður fullveldisins sem yfirráða samfélagsins yfir auðlindum landsins og ég byggi það á staðreyndum og raunveruleika. Í fáeinum orðum ætla ég að fara yfir eins og átta atriði sem við fengum send, þ.e. sem Miðflokkurinn og bandamenn hans í orkumálum, Orkan okkar, dreifa meðal manna. Þar er byrjað á því að segja að orkuverð hækki í kjölfar allra orkupakkanna. Hafi það hækkað óeðlilega, segi ég, sem er reyndar umdeilt með fyrsta og öðrum orkupakkanum — þá er ég að tala um til margra áratuga — er það aftur á móti staðreynd að slíkt er ekki innifalið í þriðja orkupakkanum. Það eru engin ákvæði þar í um verðmyndun því að hún ræðst af innlendri samkeppni, vissulega undir eftirliti sem gengur út á réttindi neytenda. Það er þessi bætti neytendaréttur og styrkara eftirlit sem orkupakkinn gengur út á.

Sæstrengur hækkar orkuverð — og hann mun auðvitað koma, þið vitið það. Það er algjörlega ófrávíkjanlegt í orðum þessara ágætu manna. Hann mun koma. Það eru auðvitað áhöld um hvort og hversu mikið raforkuverð kynni að hækka ef sæstrengur kæmi. Í Noregi sveiflast orkuverðið eftir árstíðum og staðreyndin er sú að Ísland og Noregur eru nokkurn veginn á sama stað nú um stundir með orkuverð. Ég lít svo á að þarna sé einfaldlega verið að hræða fólk með blekkingum. Það er fólk sem trúir því að orkuverð muni hækka nánast daginn eftir að þriðji orkupakkinn verður samþykktur. En það verður ekki, að ég held, ég tel það alla vega ekki.

Markaðsvæðing — hún fólst í fyrsta og öðrum orkupakkanum en sá þriðji ýtir ekki undir hana. Markaðsvæðingin er komin. Hún ræðst af fyrsta og öðrum orkupakka sem ég nefndi og Evrópusamvinnunni okkar eða EES-samningnum sem slíkum. En þriðji orkupakkinn kemur ekki þar við sögu þannig að það er blekking.

Orkuöryggi stefnt í hættu — látið er að því liggja að það gerist með þriðja orkupakkanum. Ef slíkt öryggi væri í hættu vegna sæstrengs, sem er meira en umdeilt, er hér enginn sæstrengur. Orkuöryggi okkar er ekki stefnt í hættu. Gefum okkur að sæstrengur muni koma, eins og þetta ágæta fólk segir: Jú, jú, það má kannski segja sem svo að það gæti verið í hættu. Gæti verið. En að leggja þetta fram eins og gert er er enn ein blekkingin.

Náttúruvernd í hættu með þriðja orkupakkanum — þriðji orkupakkinn vegur ekki að neinni íslenskri reglugerð um umhverfisvernd, hvað þá að hann muni skáka fjórða áfanga rammaáætlunar, skipulagsmálum, friðlýsingu vatnasviða og háhitasvæða o.s.frv. Eða hvað eigum við að segja um nýju lögin um mat á umhverfisáhrifum sem eru í vinnslu? Það er ekki fótur fyrir því að þriðji orkupakkinn gangi til höfuðs íslenskri náttúruvernd.

Forræði yfir orkuauðlindum — samkvæmt EES-samningnum hefur Ísland fullt forræði yfir öllum þáttum orkuvinnslu og -flutnings. Það stendur í honum. Þetta er enn ein blekkingin.

Orkulöggjöf EES bakar okkur tjón — við hlítum ekki erlendri orkulöggjöf, við gerum það ekki. Við hlítum íslenskri orkulöggjöf. Virkjanir, flutningsleiðir og orkusala lúta íslenskum lögum, aðlöguðum reglum sem EES-samningurinn hefur vissulega fært okkur en það hefur þó gerst á þann máta að það gengur ekki í berhögg við meginhagsmuni okkar. Þess vegna höfum við tekið við þessum orkupökkum, reyndar með aðlögun. Það voru ákveðnar aðlaganir í sambandi við þriðja orkupakkann. Ég held því fram að við séum ekki að baka okkur tjón. Við erum ekki tengd meginlandinu og við erum ekki að baka okkur tjón.

Og sæstreng verður ekki hægt að hafna — það er fullyrðing sem hvorki stenst alþjóðalög né innlend lög. Það eru engin dæmi um þvingaða orkuframleiðslu eða þvinguð flutningskerfi yfir landamæri í ESB-löndunum. Ég hef margoft auglýst eftir þessu. Menn geta ekki komið fram með nokkurn skapaðan hlut. Það gilda auðvitað tví- og þríhliða samningar milli landa um orkusölu en það er vissulega eftirlit með því að þeir samningar séu haldnir. Þar kemur ACER til sögunnar. Sæstrengslagning er 100% á okkar framfæri og aflið í hann sömuleiðis. Allt annað er blekking. Ef menn halda að menn geti farið yfir 12 mílna landhelgina án nokkurrar viðstöðu ef kærumál fara þannig og ef menn halda að alþjóðlegir samningar á borð við EES-samninginn toppi hafréttarsáttmálann eru þeir úti að aka.

Við mörg viljum halda orkuframleiðslu og -nýtingu hér á landi. Við viljum halda yfirráðum og gerum það vegna loftslagsmála, vegna sjálfbærra náttúrunytja, vegna grósku í hratt vaxandi samfélagi, vegna áhuga á matvælastóriðju, svo að ég nefni eitthvað, vegna orkuskipta, nýsköpunar, en við andæfum þessari ódýru lýðhyggju og popúlisma sem ég hef orðið vitni að og er andstæður virku fjöldalýðræði, andstæður jafnrétti og jöfnuði og því borgaralega þingræði sem við veljum því kapítalíska þjóðfélagi sem við lifum í.

Samfélagið á að ráða yfir helstu auðlindum og hagnýtingu þeirra. Markaðurinn má ekki verða þar ofan á. EES-samningurinn er okkur hagfelldur ef við náum, eins og hingað til, í aðalatriðum, að sníða af innleiðingu hliðar sem ekki henta — með hundshaus, eins og hv. þingmaður orðaði það hér á undan. Við þá vinnu eflum við og vinnum í sameiginlegri samsteypuríkisstjórn að því að halda félagslegri stjórn á helstu sviðum samfélagsins.

Æ fleiri stjórnmálamenn gera sér grein fyrir gildi þessa og því eru Miðflokkurinn og Flokkur fólksins í miklum minni hluta hér á Alþingi. Ég er raunar sannfærður um að margir sem hafa áhyggjur af þriðja orkupakkanum (Forseti hringir.) upplifi brátt að raunveruleikinn er ekki sá sem lýðhyggjan básúnar. Til langrar framtíðar getur enginn í lýðræðisþjóðfélagi tryggt sig gegn röngum ákvörðunum og lagabreytingum eða stjórnlagabreytingum í stjórnmálunum. En það er hægt hér og nú á Íslandi með samstarfi flokka og það er raunveruleikinn sem við stöndum frammi fyrir.