149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:27]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég furða mig á þessari spurningu og þarf að endurtaka hana: Ef þriðji orkupakkinn hefði það í för með sér að raforkuverð hækkaði á Íslandi, væri ég þá á móti honum? Ég gæti verið á móti honum út af alls konar hlutum sem ekki eru í honum. En nú er það svo, hvort sem er þessi orkupakki eða einhver annar, að hann hefur ákveðið innihald, og ég veit og er sannfærður um að þær raforkuhækkanir eru ekki í þessum umrædda pakka.

Ég ætla að svara hv. þingmanni þannig að ég myndi vilja fá að sjá umbúnaðinn allan í þriðja orkupakkanum áður en ég svara því já eða nei, hvort ég yrði á móti þriðja orkupakkanum ef hann fæli í sér raforkuhækkanir. Mér er illa við raforkuhækkanir. Ég er á móti þeim, en ég get stundum viðurkennt að þær séu nauðsynlegar ef einhver skynsamleg rök eru fyrir þeim. En þessi spurning er svo furðuleg að ég held að ég verði að leyfa þessu svari að standa og fá þá nýja spurningu frá hv. þingmanni.