149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[13:21]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir mjög góð andsvör. Tel ég að EES-samningurinn sé í hættu ef Alþingi neitar að heimila innleiðingu orkupakka þrjú? Já, mögulega. Það gæti gerst, eins og ég nefndi í ræðu minni áðan og líka í vor, með því að innleiða ekki ákveðið regluverk sem gildir um sameiginlegan markað. Eftir að yfirferð í sameiginlegu nefndinni lýkur höfum við tækifæri til að fá þær undanþágur og aðlaganir sem við biðjum um og við höfum t.d. fengið þær í þessu máli. Það að vísa málinu til baka eftir að ferlinu lýkur hefur aldrei verið gert í 25 ára sögu samningsins. Þeir sérfræðingar sem við höfum spurt þeirrar spurningar sem hv. þingmaður er að spyrja mig nú segja að um fullkomna óvissuferð væri að ræða fyrir okkur með mögulega mjög alvarlegum pólitískum afleiðingum. Það getur enginn sagt nákvæmlega til um, og ekki ég heldur, hverjar þær yrðu. En ég tel að hagsmunum okkar Íslendinga yrði ekki betur borgið með því að taka þann séns.

Það var önnur spurning frá hv. þingmanni. Ég veit ekki til þess að skilaboð hafi borist frá Evrópusambandinu, einhverjar hótanir um að segja upp samningnum. Ég hef ekki þær upplýsingar hjá mér. Ég bendi hv. þingmanni á að ræða við samflokksmann sinn, hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson, sem var utanríkisráðherra á því tímabili sem þetta mál var í sameiginlegu EES-nefndinni. Hann hefur eflaust upplýsingar um hvers vegna ekki var óskað frekari undanþágna.

Fyrirvararnir, já, þeir halda. Það hefur komið í ljós við yfirferð nefndarinnar (Forseti hringir.) og vísa ég þá t.d. í 31. gr. Vínarsamningsins. Einnig hafa fræðimennirnir Stefán Már Stefánsson og Friðrik Árni Friðriksson Hirst stutt þá skoðun.