149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[13:31]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir andsvarið og spyr hann jafnframt til baka hvort hv. þingmaður hafi sjálfur lesið öll þau álit sem liggja fyrir í umfjöllun hv. utanríkismálanefndar. Þar er margt að finna sem væri e.t.v. gagnlegt, eftir allan þennan tíma, fyrir hv. þingmann að lesa.

Ég svaraði, að ég held, hv. þm. Birgi Þórarinssyni ágætlega um hvað mér finnst um þessar undanþágur eða frávísun og ég ætla ekkert að endurtaka það hér. En ég spyr aftur hv. þingmann: Hvaða undanþágur ættum við að biðja um umfram þær sem við höfum þegar fengið? Það er spurningin. Alþingi sendir ekki mál til baka til sameiginlegu EES-nefndarinnar bara „af því bara“, til að tékka af eitthvað sem er samt óljóst. Það verður að vera mjög skýrt hvað við værum að biðja um. Ég spyr hv. þingmann: Hvað vill þingmaðurinn til viðbótar við það sem við höfum þegar fengið? Það væri áhugavert að heyra það svar eftir alla þessa umræðu, hátt í annað hundruð klukkutíma í þingsal. Ég hef ekki enn þá fengið svar við þeirri spurningu, hvorki í nefndinni né hér í þingsal.

Um fyrirvarana liggja fyrir bréf sem margoft hefur líka verið vitnað í, bæði frá orkumálastjóra Evrópusambandsins og EFTA, sem var fjallað um í umræðunni í vor. Það kom fram í máli nokkurra sérfræðinga sem komu fyrir nefndina aftur í sumar að yfirlýsingar þessara aðila hefðu þjóðréttarlegt gildi og vísað í 31. gr. Vínarsamningsins því til stuðnings. Um sambærilegar yfirlýsingar hafa fallið dómar og það er líka hægt að fletta þeim upp og ég gæti sent hv. þingmanni lista yfir þá dóma til þess að hann geti verið alveg viss. (Forseti hringir.)

Ég virði áhyggjur hv. þingmanns en fullveldið er ekki í hættu. Stjórnarskráin er ekki í hættu. Við erum ekki að (Forseti hringir.) brjóta fjórfrelsið og hingað verður ekki lagður sæstrengur nema með samþykki íslensku þjóðarinnar.