149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[13:49]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég hef tekið eftir því hjá hv. þingmanni í ræðum hennar í þessu máli, sem hafa ekki verið margar, að henni verður tíðrætt um aukna neytendavernd, þetta sé svo mikilvægt mál vegna þess að það feli í sér aukna neytendavernd. Þá er nauðsynlegt að skoða í samhengi orkupakka eitt og tvö vegna þess að þetta er allt ein heild. Þetta er eitt skref í einu í átt að fullkomnu auknu markaðsfrelsi með raforku. Þá verð ég að spyrja hv. þingmann hvort hún telji reynsluna af orkupakka eitt og tvö vera góða þegar kemur að neytendavernd.

Hv. þingmaður hefur einnig nefnt það í ræðum sínum að það sé hægt að skipta um orkusala, að þar sé komin samkeppni. En hver er raunin? Hver er reynslan t.d. af orkupakka eitt? Hún er sú að það svarar ekki kostnaði að skipta um orkusala vegna þess að afslættirnir sem fást eru svo litlir. Ég þekki þetta af eigin raun vegna þess að ég kyndi hús með rafmagni. Orkupakki eitt gerði það að verkum að rafmagnið til húshitunar hjá mér hækkaði um 90% á einni nóttu vegna þess að allir sérsamningar voru bannaðir. Embættismannakerfið í Brussel bannaði fyrirtækinu Hitaveitu Suðurnesja að niðurgreiða rafmagn til húshitunar. Og ég spyr: Hvað kemur embættismönnum í Brussel það við, hv. þingmaður, að við niðurgreiðum rafmagn til húshitunar í okkar harðbýla landi?

Auk þess hef ég reynt að skipta um orkusala til að reyna að ná niður rafmagnskostnaðinum, en árangurinn er enginn vegna þess að það svarar ekki kostnaði.

Það sem boðað var í orkupakka eitt um aukna neytendavernd stenst ekki, (Forseti hringir.) hv. þingmaður. Það stenst ekki. Þess vegna vil ég fá það á hreint: Telur (Forseti hringir.) hv. þingmaður reynsluna af orkupakka eitt og tvö vera (Forseti hringir.) jákvæða fyrir Íslendinga, jákvæða fyrir neytendur? Er þetta neytendaverndin sem þú ert (Forseti hringir.) svona ánægð með, hv. þingmaður?

(Forseti (ÞorS): Enn minnir forseti á tímamörk.)