149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:03]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hér hefur töluvert verið rætt um sameiginlegu EES-nefndina. Efnislega fékk Ísland með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 2017 undanþágur vegna þriðja orkupakkans. Þær byggðu á þeim undanþágum sem Ísland sóttist eftir og fékk við innleiðingu fyrsta og annars orkupakkans. Það er undanþága um fullan eigendaaðskilnað flutningsfyrirtækja, þ.e. Landsnets, og svo framleiðslu- og sölufyrirtækjunum og dreifiveitunum. Það er heimilt að sækja um undanþágu sem lítið og einangrað raforkukerfi. Ísland er undanþegið öllum ESB-gerðum um gas úr jörðu. Þá vil ég einmitt nefna það þriðja sem hefur komið hérna fram, menn eru að tala um gasnotkun á Íslandi úr einhverjum kútum. Þetta á við jarðgas sem er ekki til á Íslandi. Í fjórða lagi var samið um tveggja stoða aðlögun með þeim hætti að Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, mun fara með þær valdheimildir gagnvart EFTA-ríkjunum innan EES sem um ræðir en ekki ACER.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún sé sammála mér um að þetta séu mikilvæg atriði og þá af hverju. Þetta eru atriði sem hv. Miðflokksmenn segja sem allra minnst um.