149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:54]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Orkan var frá upphafi hluti af EES-samningnum. Það er rétt að um þá sérstöðu var ekki sótt við innleiðingu fyrsta og annars orkupakkans. Þar má segja að við höfum misst af þeim vagni. Á þetta var þó bent í umræðum um það af þingmönnum Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, bara svo ég nefni það til gamans fyrir salinn.

En nú erum við komin á þann stað að við erum að innleiða orkupakka þrjú með skýrum fyrirvörum sem lögfræðingar hafa lagt mat á og leggur hann enga skyldu á íslensk stjórnvöld að tengjast raforkukerfi Evrópu. Enga. Þar liggur ákvörðunin hjá okkur.

Ég ætla að taka mark á þeim mikla meiri hluta sérfræðinga sem hefur farið yfir það mál. Við erum bara á þeim stað að ekki þýðir að horfa í baksýnisspegilinn, hvorki til síðustu, þar síðustu, þar á undan eða til 2005, eins og hv. þingmaður er að gera. Nú skiptir máli að við afgreiðum þetta mál með góðum (Forseti hringir.) hætti og ég tel að verið sé að gera það.