149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:08]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég útiloka að sjálfsögðu ekki að þessari grein verði einhvern tímann beitt eins og hv. þingmaður spyr. Það er erfitt að segja hvað gæti talist rétta tilefnið. Ég held að það sé alltaf háð mati og það þarf þá að mínu viti að vera veigameira tilefni en það mál sem við ræðum hér sem ég fór yfir áðan að ég teldi ekki fela neitt slíkt í sér sem kallaði á það. En það kann ekki að vera útilokað að slíkar aðstæður kæmu upp.

Það sem ég myndi hins vegar vilja segja, og ég nefndi áðan í svari mínu við andsvari hv. þm. Guðmundar Inga Kristinssonar, er að ég tel að þetta mál kalli líka á það að við skoðum málsmeðferðina. Hér hafa þingmenn gagnrýnt málsmeðferð á fyrri stigum af hálfu Alþingis, af hálfu ólíkra nefnda Alþingis. Kallar það ekki á það að við tökum hana til skoðunar, hvort við séum sátt við það hvernig við sem þing höfum staðið að þessu máli? Það höfum við verið að gera hér, eins og ég benti á, í níu ár með ólíkum ríkisstjórnum, einum fimm að mér telst til, og ólíkum þingum. Ég fór yfir það að þingmenn úr öllum flokkum skrifuðu undir álit þessara nefnda á sínum tíma. (Forseti hringir.) Teljum við að eitthvað hafi farið úrskeiðis þar þá skulum við ræða það.