149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:09]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir prýðisræðu, þó að ég sé ekki að öllu leyti sammála henni á allan hátt. Ráðherrann talaði um að við ættum ekki að óttast fullveldi okkar. Þar er ég alveg sammála henni. En ég er samt ekki óttalaus í dag, ég verð að viðurkenna það, og þar kemur þessi þriðji orkupakki inn í.

Mig langar að spyrja ráðherrann, vegna þess að hún talaði um að það hafi ekkert nýtt komið fram. En í fréttum hefur komið fram, meira að segja ráðherrann minntist á fréttir frá Belgíu, fréttir frá Frakklandi, en hún sagðist ekki hafa áhyggjur af því, en ég hef það. Þar kemur fram að framkvæmdastjórn ESB hefur sagt að innleiðingin á tveimur reglugerðum í orkupakkanum hjá þeim, nr. 72 og 73, hafi ekki verið framkvæmd á réttan hátt.

Hvernig getur ráðherrann ekki haft áhyggjur af því að það sama gæti komið upp hérna?

Eins ætla ég að spyrja hana annarrar spurningar í seinna andsvarinu.