149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:15]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég hef í hyggju að gefa hér smávægilegt yfirlit yfir forsendur málatilbúnaðar ríkisstjórnarinnar fyrir þessu máli. Fyrir lá snemma í vor að mikil andstaða var innan stjórnarflokkanna vegna innleiðingar á þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Þegar málið var kynnt innan stjórnarflokkanna náðist skyndilega samstaða. Hvers vegna? Vegna þess að innleiða átti þessar tilskipanir Evrópusambandsins með lagalegum fyrirvara. Það var lykilatriði.

Í fyrstu leit þetta hreint ekki illa út, enda beit hinn venjulegi og tryggi stjórnarþingmaður á agnið, ef svo mætti segja, eins og í laxveiðinni, að það hafi verið kokgleypt. Lagalegi fyrirvarinn átti að gegna því hlutverki að koma í veg fyrir að ákveðin ákvæði í regluverkinu sem fræðimenn höfðu bent á að gætu farið í bága við stjórnarskrá og þá sérstaklega ákvæði um framsal valds til yfirþjóðlegra stofnana Evrópusambandsins yrðu ekki virk við innleiðinguna. Hafa ber í huga að þessi lausn um lagalega fyrirvarann sem ríkisstjórnin valdi var lakari kosturinn sem tveir margnefndir álitsgjafar ríkisstjórnarinnar höfðu lagt til í álitsgerð sinni og hafði alls ekki hlotið neina umfjöllun né sætt neinni sérstakri rannsókn. Og aðrir álitsgjafar ríkisstjórnarinnar, vel að merkja, hafa ekki rannsakað þessa leið. Álit þeirra komu áður en þessi lagalegi fyrirvari kom í álitsgerð þeirra tvímenninga. Sá eini sem hefur fjallað um þetta af þessum álitsgjöfum er Davíð Þór Björgvinsson prófessor. Hann sagði á nefndarfundi þegar hann var spurður um lagalega fyrirvarann og gildi hans að hann var eingöngu til heimabrúks. Það vakti líka athygli áðan að hæstv. forsætisráðherra gat aðspurð ekki bent á neitt lögfræðiálit þar sem fullyrt væri að hinn lagalegi fyrirvari hefði eitthvert gildi að þjóðarétti, enda töldu fræðimennirnir sem lögðu þessa leið til hana ekki gallalausa, sem kom svo berlega í ljós.

Mikið fát koma stjórnarliðið 15. maí sl. þegar spurt var hvar þessa fyrirvara væri að finna. Svörin sem komu voru mörg og misvísandi og alls kyns. Ég er búinn að lista upp ein ellefu, þau eru hugsanlega fleiri. Lítum stuttlega á nokkur þessara svara stuðningsmanna orkupakkans um hvar lagalega fyrirvarann væri að finna. Þetta er aðallega frá 14., 15. og 20. maí.

Fyrstu uppástungan var að fyrirvarann væri að finna í sameiginlegum skilningi eins af framkvæmdastjóra orkumála hjá Evrópusambandinu og utanríkisráðherra Íslands frá 20. mars 2019 um sérstöðu Íslands sem eyju. Enginn heldur því fram í dag að hér sé um að ræða eitthvað sem hafi gildi þjóðréttarlega. Enginn.

Næsta uppástunga var að fyrirvarann væri að finna í yfirlýsingu EFTA-ríkjanna frá 8. maí 2019 um að enginn sæstrengur væri á milli Íslands og Evrópu. Enginn heldur því fram í dag í fullri alvöru að þessi yfirlýsing hafi nokkurt þjóðréttarlegt gildi.

Þriðja fullyrðing þingmanna stjórnarliðsins var að fyrirvarann væri að finna í frumvarpi hæstv. iðnaðarráðherra til breytingar á raforkulögum, þar sem segir að tengingar raforkukerfisins við önnur lönd fari eftir stefnu stjórnvalda.

Herra forseti. Ef stefna stjórnvalda í framtíðinni verður sú að hafna lagningu sæstrengs gætum við þurft að horfast í augu við samningsbrotamál svipuðu því sem við töpuðum vegna ófrosna kjötsins og kostaði íslenska ríkið stórfé og opnaði íslenskan markað fyrir þessum vörum í andstöðu við yfirlýstan vilja stjórnvalda. Það er ekki eins og þessi hugsanlega atburðarás ætti að koma nokkrum manni á óvart, því þeir sömu álitsgjafar ríkisstjórnarinnar hafa bent á að slík staða gæti reynst Íslandi erfið. Skaðabótakröfur í framhaldinu gætu orðið af þeirri stærðargráðu sem enginn kærir sig um að hugsa út í.

Fjórða tilgáta stjórnarþingmanna var að fyrirvara mætti finna í greinargerð með þingsályktunartillögunni sjálfri. Enginn heldur því fram í dag að orð í greinargerð með þingsályktunartillögu hafi eitthvert gildi að þjóðarétti.

Fimmta ábendingin fólst í þeim orðum eins hv. þingmanns að þessi ákvæði kæmu til endurskoðunar ef til þess kæmi að Ísland yrði tengt öðrum löndum. Já, nefnilega. Við ætlum sem sagt að ráðast í að breyta Evrópulöggjöfinni ef kemur til lagningar sæstrengs. Ég hef ekki heyrt fleiri halda þessu fram.

Ég gæti nefnt fleiri dæmi og er með þau hér. En niðurstaðan er sú að stjórnin og stjórnarþingmenn hafa ekki getað útskýrt, (Forseti hringir.) hvorki fyrir okkur né almenningi, undir hvaða skuldbindingar við erum að gangast með því að samþykkja þetta regluverk.