149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:20]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi held ég að þingmaðurinn hafi ekki heyrt ræðu mína þar sem ég var ekki að ásaka neinn í henni fyrir að hafa ekki kynnt sér málið. Hv. þingmaður veit líka að ég sat ekki þá nefndarfundi utanríkismálanefndar þar sem þessi skjöl voru kynnt en ég viðurkenni að ég hef lesið a.m.k. eitt minnisblað sem var lagt fyrir nefndina um þetta mál. Ég verð að segja að eftir að hafa lesið það minnisblað er ég ekki mjög öruggur um að endilega sé verið að gæta að þeim hlutum sem hafa verið nefndir í umræðu um orkupakka þrjú.

En ég þakka hv. þingmanni fyrir hólið, að segja að ég hafi gætt hagsmuna Íslands mjög vel. Ég er ekkert frá því að ég hafi reynt að gera það, já, en ég er samt ósáttur, var ósáttur og er ósáttur, við þær undanþágur sem við fengum frá þessum orkupakka. Þær eru ekkert mjög veigamiklar. Við fengum ekki undanþágu vegna þess að við erum lítið og einangrað kerfi. Okkur er sagt að það sé svo mikil raforka framleidd á Íslandi, við erum komin með 17 gígavattstundir eða eitthvað slíkt. Við fengum ekki undanþágu, m.a. vegna þess að við innleiddum orkupakka tvö svo frábærlega vel.

Hvernig haldið þið að gangi fyrir formann utanríkismálanefndar að berjast fyrir afslætti og undanþágum frá orkupakka fjögur þegar við verðum búin að innleiða orkupakka þrjú með glæsibrag? Þá verða sömu rökin notuð. Ég man ekki eftir í áðurnefndu minnisblaði frá utanríkisráðuneytinu að við höfum séð hvar „hætturnar“ eru, hvar við ætlum að reyna að fá undanþágur. Ég man ekki eftir að hafa séð það í því minnisblaði. Kannski erum við ekki komin svo langt, það getur líka vel verið, en einhverra hluta vegna var þetta mál ekki klárað þegar sá er hér stendur var utanríkisráðherra. Það hefur enginn spurt af hverju. Málið var hins vegar klárað í júní 2016.