149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:26]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Frú forseti. Það er búið að segja það hér í dag að ekkert nýtt hafi komið fram í þessari umræðu. Það er í fyrsta lagi rangt. Það hefur mjög margt nýtt komið fram í umræðunni. Ég verð líka að spyrja: Þurfti eitthvað nýtt að koma fram? Það lá þegar fyrir að við værum a.m.k., svo maður sé kurteis, að þrýsta mjög alvarlega á íslensku stjórnarskrána. Það var ljóst að við værum að fara fram með meira valdframsal en nokkru sinni fyrr. Ég held að Stefán Már Stefánsson, prófessor emeritus, og hans ágæti meðhöfundur, hljóti að hafa hrokkið við áðan, hafandi lagt þetta á borðið í greinargerð sinni sem þeir unnu nota bene fyrir utanríkisráðherra, sem hélt svona Fylkisræðu herrakvölds hér í morgun, þar sem þeir lögðu það fyrir að þetta væri svo, að verið væri að reyna meira á stjórnarskrána en áður. Það væri verið með meira valdafsal en áður, en ráðherra iðnaðar- og ferðamála kemur hingað og strikar bara yfir þetta. Eins og ég segi, ég held að þessir ágætu heiðursmenn hljóti að hafa hrokkið aðeins við.

Einnig hafa komið fram álit frá öðrum fræðimönnum og þau álit hafa farið þannig í fólk að þingmenn hafa móðgast út í þá suma. Ég veit ekki hvernig á að koma fram við þingmenn. Eiga menn sem koma fyrir þingnefnd að bakka út eins og var gert frá kóngum í gamla daga? Er það? Á að tala á einhvern sérstakan hátt við þingmenn af því að þeir eru þingmenn, er það þannig? Ætlum við að búa eitthvað svoleiðis til hér?

En það er annað, eitt í viðbót, og mér þykir mjög leitt að hv. formaður utanríkismálanefndar skuli vera farin héðan úr salnum, vegna þess að það sló alla vega þann sem hér stendur um daginn þegar hún mætti í útvarpsþátt og sagði að hún kannaðist ekki við það að í áliti Stefáns Más og Friðriks Árna væri sagt að það gæti skapast samningsbrotamál. Hún spurði: Hvar er það í álitinu? Ef stjórnarliðar sem véla um þetta mál hafa lesið þau gögn svona vel, öll sem fyrir þau voru lögð, þá er ekki undarlegt að manni bregði aðeins við.

Ég vil taka fram að ég fagna því mjög að menn tóku þátt í umræðunni í dag, margir í fyrsta sinn. Ég vildi að ég ætti 20 mínútna ræðu nú, en ég er ekki að tala í fyrsta sinn, ég er að tala í 50. sinn, held ég.

Málið er þetta. Winston Churchill sagði tvennt. Hann sagði: Stjórnmálamenn verða ekki dæmdir af því sem þeir gera daginn sem þeir gera það eða daginn eftir. Það er framtíðin sem mun á endanum dæma verk þeirra. — Það verður svo um þetta mál.

Ég er mjög feginn að ég hef þá afstöðu, og félagar mínir, í þessu máli vegna þess að ef mér endist örindi þá get ég sagt við barnabörnin mín einhvern tíma í framtíðinni með góðri samvisku: Nei, ég tók ekki þátt í að gera þetta.

Winston Churchill sagði líka annað. Hann sagði: Það eru aðeins heimskingjarnir sem skipta ekki um skoðun. Þeir hyggnu gera það. — Þannig að sú fánýta sagnfræði sem hér hefur verið höfð uppi er einmitt það, hún er fánýt sagnfræði.

Ræðurnar í dag hafa verið prýðilegar. Ég var mjög ánægður með ræðu forsætisráðherra. Ég var ánægður með hluta af ræðu fjármálaráðherra. Menn hafa verið mestan part málefnalegir, nema náttúrlega þeir sem koma hingað og segja að ekkert nema: Trump og bull og þjóðernispopúlismi, eitthvað svoleiðis. Slíkur málflutningur dæmir sig sjálfur. Maður fer ekki ofan í þá hlandfor til viðkomandi.

En það sem við erum hins vegar viss um núna áður en andófið byrjaði í vor, áður en þetta rof varð á málinu í sumar vissu kannski ekki jafn margir jafn mikið um málið og þeir gera í dag. Og það er næsta víst að þjóðin sem fylgist með okkur, mikill meiri hluti hennar, er á móti málinu. Þjóðin veit núna hverjir það eru sem standa með henni. Þjóðin veit núna hverjir það eru sem hlusta á hana. Þjóðin veit núna hverjir það eru sem böðla svona máli í gegn. Ég þori hér um bil að veðja að máli af þessari stærðargráðu verður ekki böðlað í gegnum þingið aftur. Ef það verður svo, þá hefur andóf okkar sem stóðum hér nætur og daga í vor, og stöndum sum hér enn, ekki verið til einskis.