149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:53]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég skildi hv. þingmann þannig að þingmaðurinn hefði talið bót í því að umræða um þennan orkupakka og deilur um hann hefði staðið lengur en raunin hefur verið og byrjað fyrr og það hefðu verið mitt hlutverk að setja þær deilur af stað. Þá bið ég hv. þingmann afsökunar á að hafa ekki getað orðið við þeim óskum. En það er hins vegar fjöldinn allur af EES-málum sem er ástæða til að hafa áhyggjur af svoleiðis að við getum hugsanlega náð saman um að ég taki að mér að grúska í EES-málum og finni eitthvað til að fara að deila um við hv. þingmann fljótlega.

En þá að hinni spurningunni um Eftirlitsstofnun EFTA. Það var mjög áhugavert að heyra hv. þingmann viðurkenna það í raun — ég veit að hv. þingmenn Viðreisnar hafa verið opinskárri um þetta mál en margir aðrir hérna og stuðningur þeirra við það kemur kannski ekki á óvart — og hún fór yfir það að þegar kæmi að ágreiningi, t.d. um raforkutengingar, lagningu sæstrengs og framkvæmdir í orkumálum, þá væri það hin sjálfstæða Orkustofnun og svo yfirstofnun hennar, hvernig sem það fer saman að vera sjálfstæð stofnun með yfirstofnun, yfirstofnun hennar, ACER, sem myndi kveða upp úr. En það var allt í lagi vegna þess að þarna væri millistykkið sem er ESA.

En hefur hv. þingmaður kynnt sér hvert hlutverk ESA er í þessu sambandi? Það kemur alveg skýrt fram. Hlutverk ESA er í rauninni bara að vera nokkurs konar bréfberi og skila skilaboðunum frá ACER til Orkustofnunar. Reyndar er tekið fram að ESA geti sent ACER drög, geti sent inn tillögur, en hún hefur ekkert vald. Í rauninni getur ACER ákveðið að gera ekkert með drögin sem ESA sendir.