149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:18]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Herra forseti. Þetta mál hefur verið rætt mikið. Það hefur tekið mikla orku. Það er orkan okkar sem fer í þetta allt saman. Flokkurinn sem hefur staðið fyrir þessari umræðu — gæti hann ekki kallast nokkurs konar landsruglari?

Niðurstaða þeirra sérfræðinga sem hefur verið leitað til varðandi málið er hins vegar sú að innleiðing ákvæða þriðja orkupakkans í íslenskan rétt sé í samræmi við stjórnarskrá. Stefán Már Stefánsson og Friðrik Árni Friðriksson Hirst telja raunar að þörf sé á þeim fyrirvörum sem verða ræddir hér á morgun. Þeir dugi.

Innleiðing þriðja orkupakkans hækkar ekki verð á rafmagni til almennings eða garðyrkjubænda eða bakara. En vel að merkja er það kannski ekki endilega vænleg stefna, svona í sjálfu sér, að standa vörð um lágt verð á orku um aldur og ævi til allra. Við eigum að sjá til þess að verð sé lágt til almennings og til almennra nota. En það má alveg hugsa sér að hægt sé, hugsanlega einhvern tímann, að fá betra verð fyrir orkusölu til erlendra stórkaupenda en til stóriðjunnar nú í dag.

Ég sé ekki ástæðu til þess að standa vörð um lágt verð til stóriðju á Íslandi. Ég sé heldur ekki ástæðu til að útiloka um aldur og ævi lagningu sæstrengs hingað. Af hverju ætti maður að vera í prinsippinu á móti sæstreng? Mér finnst þetta eiginlega dálítið sambærilegt við það að setja sér það markmið að fá sem allra lægst verð fyrir íslenskan fisk á evrópskum markaði undir kjörorðinu: Íslenskan fisk fyrir íslenska þjóð.

Hugsanlegur sæstrengur hingað er ólíklegur kostur, hann er bara sérstakt úrlausnarefni sem við erum ekki að greiða atkvæði um hér og nú. En ég minni á að hann getur líka varðað orkuöryggi okkar hér.

Við erum ekki að fara að missa forræðið yfir auðlindum okkar. Við erum ekki að fara að leggja sæstreng hingað. Það mun engin skaðabótaskylda vakna við það ef Alþingi fellir að leggja sæstreng hingað. Ekkert í þessum orkupakka kemur okkur við nema við tengjumst evrópskum orkumarkaði með slíkum streng.

Umræðan um þriðja orkupakkann hefur eiginlega eingöngu snúist um það sem ekki stendur þar. Hér hafa staðið menn, t.d. í dag, og talað ábúðarmiklir um lögfræðiálit og það sem ekki stendur þar. Ég ætla að vera trúr þeirri hefð í þeim fáu orðum sem ég ætla að hafa hér í þessum ræðustól um málið. Ég mun ekki endurtaka þau rök sem margoft hafa komið fram og ætla að fjalla almennt um málið.

Deilan um þriðja orkupakkann leiðir í ljós djúpstæðan ágreining um tengsl okkar Íslendinga við Evrópusambandið og snýst eiginlega fyrst og fremst um þau tengsl, hvernig þeim skuli háttað. Því er ekki að neita að það fyrirkomulag að vera í EFTA og svo í EES, sem er nokkurs konar aukaaðild að Evrópusambandinu með tilheyrandi markaðsaðgangi en kannski ekki nægilega góðrar aðkomu að setningu þess regluverks sem því fylgir, hefur sína ókosti, ekki síst þegar við höfum stjórnvöld sem ekki nýta sér þau tækifæri sem þó gefast til að hafa áhrif á þróun regluverksins, t.d. með því að halda á lofti sérstöðu og þörf fyrir undantekningar, stjórnvöld eins og voru hér á landi þegar orkupakki þrjú var í raun og veru í vinnslu.

Ef við myndum nú, á lokastigum málsins, síðust þjóða, þegar aðrar þjóðir hafa afgreitt málið, þjóðir sem málið varðar kannski miklu meira en okkur, og eftir að við létum undir höfuð leggjast að gera athugasemdir þegar sá gluggi var opinn — ef við myndum nú vísa málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar værum við náttúrlega eins og farþegi í lest sem ýtir á neyðarhemilinn. Það þurfa að vera ríkar ástæður til að svo sé gert. En enga slíka ástæðu er að finna, að mínu mati, í innleiðingu þessa þriðja orkupakka, hvað þá neyð.

Maður heyrir stundum talað í umræðu um Evrópusambandið sem nokkurs konar óseðjandi heimsveldi sem ásælist íslenskar auðlindir og vill brjóta undir sig Ísland, brjóta undir sig íslenska þjóð og brjóta undir sig allt sem íslenskt er. Ég deili ekki þeirri sýn á Evrópusambandið. Það hefur marga galla og það er þungt í vöfum og það er örugglega bölvað vesen að vera þar með fulla aðild. En engu að síður lít ég á Evrópusambandið sem net. Það er samband, það er vettvangur samráðs og sameiginlegra ákvarðana um sameiginlega hagsmuni.

Við lifum nú sem aldrei fyrr á öld stórfyrirtækjanna, hinna risastóru samsteypa sem engin landamæri virða, virða varla réttkjörin stjórnvöld, en líta á allan heiminn sem leikvöll sinn og svæði fyrir umsvif sín sem geta ekki annað en aukist og stækkað samkvæmt vaxtarkröfu kapítalismans. Allt okkar líf virðist ofurselt hagsmunum, dyntum og regluverki þessara ógurlegu markaðsrisa, hvort sem kemur að samskiptum okkar hvert við annað eða neyslu okkar í smáu og stóru. Þessi fyrirtæki stefna að hámarksgróða fyrir hluthafa sína og starfsemi þeirra er ekki í sjálfu sér hugsuð til almannaheilla, þó að auðvitað geti starfsemi þeirra komið okkur ágætlega, stundum, og almenningi jafnvel vel á köflum.

Evrópusambandið er ekki risafyrirtæki af því tagi heldur er Evrópusambandið viðleitni fullvalda ríkja til að taka höndum saman við að búa til reglur fyrir þennan markað sem eiga að jafna stöðu þeirra sem starfa þar og gæta að hagsmunum neytenda. Evrópusambandið stendur þannig vörð um almannaheill andspænis sérhagsmunum stórfyrirtækjanna. Auðvitað gengur það og tekst misjafnlega. En það er ætlunin og hugsunin með Evrópusambandinu.

Evrópusambandið er líka risastór markaður og það hefur reynst Íslendingum alveg gríðarlega mikið heillaskref að taka þátt í því samstarfi á sinn hátt. Við höfum til þessa verið í skjóli Norðmanna í EFTA-stoð EES-samningsins, án þess þó að gera eins og þeir gerðu, að breyta stjórnarskránni til samræmis við þessa aðild, sem svo sannarlega felur í sér framsal á fullveldi í tilteknum málum, rétt eins og öll alþjóðleg samvinna gerir.

Hvað er annars fullveldi? Hvernig á fullvalda þjóð að haga sér? Væntanlega með því að hafa sem mest um sín mál að segja. Og hvernig verður það gert? Jú, með því að sitja við borðið þar sem málin eru unnin og ákvarðanir eru teknar, en ekki að taka við ákvörðunum tuðandi, heldur vera með, hafa áhrif, gegna embættum, vera í forsvari, bera höfuðið hátt, vera með. Þannig sé ég fyrir mér að fullvalda þjóð starfi, þjóð meðal þjóða.

Við erum Evrópuþjóð. Við erum í þessum heimshluta, þótt manni hafi stundum fundist eins og sumir íslenskir ráðamenn hafi á köflum talað eins og þeir vildu að við sæktum um inngöngu í Asíu. Ég tel á hinn bóginn að það sé mikið lán fyrir okkur að vera á þessum stað á jarðarkringlunni. Og því fylgi ómæld tækifæri, samfara áskorunum, en að þau tækifæri verði best nýtt í samstarfi við öflugar vinaþjóðir okkar í Evrópu, frekar en í einangrun og tortryggni.

En þó að það hafi sína ókosti að vera einungis með aukaaðild að Evrópusambandinu í gegnum EES má ekki gleyma því að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var mikið heillaskref fyrir Íslendinga, menningarlega og efnahagslega. Við eigum ekki að leika okkur að eldinum. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um efnahagsáhrifin sem fylgja fullri þátttöku í innri markaði Evrópusambandsins en auk þess njóta Íslendingar í krafti þessa samnings fullra réttinda sem Evrópubúar á heimasvæði 500 milljóna manna. Þau áhrif sem það hefur haft á tækifæri okkar Íslendinga til menntunar, búsetu og þátttöku í rannsóknum og þróunarstarfi, viðskiptum og samskiptum eru án nokkurs jöfnuðar við nokkuð í sögu landsins, nema ef vera kynni gullöldina þegar Íslendingasögurnar voru skrifaðar.

Herra forseti. Hlutverk okkar alþingismanna er að standa vörð um hagsmuni almennings. Eitt af því mikilvægasta sem okkur ber að sjá til að gerist er að íslenska þjóðin fái rentu af sínum miklu auðlindum. Þjóðin á að fá fulla auðlindarentu í orkufyrirtækjunum. Það verður ekki nógsamlega undirstrikað. Og það verður heldur ekki nógsamlega undirstrikað hversu mikilvægt það er að samfélagslega nauðsynlegar auðlindir á borð við neysluvatn og orkuauðlindir og alla stærri orkuframleiðslu og flutningskerfi séu ávallt í opinberri eigu og varðar fyrir bæði hvers kyns mengunarhættu en líka fyrir braski.

Hefði Alþingi virt niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um nýju stjórnarskrána væri þetta engum vafa undirorpið, ekki neitt af þessu. En eins og sakir standa er það skylda okkar, herra forseti, að gera það að algjöru forgangsmáli að treysta auðlindaákvæði í stjórnarskránni.