149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[15:58]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvað það þýðir að vera lögfræðilegur þungavigtarmaður. Eins og ég lýsti í ræðu minni má kannski segja að hver höndin gæti verið upp á móti annarri þegar kemur að skrefum á lögfræðilegum álitum og sitt sýnist hverjum um þau.

Allar vangaveltur, ég bara árétta það, því að menn halda að lögfræði sé eins og raunvísindi, hún er ekki raunvísindi, það getur allt gerst. Miði er möguleiki, eins og stundum er sagt. Stundum er sagt heima hjá mér, hafi menn fáránlegar kröfur fram að færa, að eini staðurinn í öllum heiminum þar sem mögulegt er að menn geti fengið þeim framgengt sé fyrir dómstólum. Það er nú bara þannig.

En það var ágætt að hv. þingmaður vísaði í ræðu hæstv. fjármálaráðherra frá því í gær, sem ég hvet menn eindregið til að hlusta á vegna þess að hún var mjög skilmerkileg — að öllum öðrum ræðum ólöstuðum sem fluttar voru í gær — að því leyti að hann lýsti vel ferli þessa þriðja orkupakka á þinginu, því að hann er einn af fáum sem situr enn á þingi sem þekkir þá sögu og af eigin raun sem fyrrverandi formaður utanríkismálanefndar. Hann þekkir þetta ferli.

Ég tek undir með honum að það er að sjálfsögðu hvenær sem er hægt að skjóta málum áfram og beita þeirri grein sem hv. þingmaður nefndi. En maður hlýtur að þurfa að velja sínar orrustur. Maður hlýtur að þurfa að vilja komast hjá því að kalla úlfur, úlfur. Eins og ég lýsti í ræðu minni tel ég ekkert í þriðja orkupakkanum kalla á þessa geðshræringu í málinu, hvað þá að menn virki þetta ákvæði. Ég tel það alveg koma til greina í mörgum öðrum málum. En í þessu — bara því miður. Því miður segi ég fyrir hv. þingmann. En ég verð (Forseti hringir.) ekki sökuð um að vilja innleiða hér allt athugasemdalaust, en ég sé ekki ástæðu til þess í þessu máli.