149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[19:26]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki mesti sérfræðingur í vangaveltum í þessum þingsal. Það sem ég er raunverulega að segja, hv. þingmaður, er að ég veit auðvitað ekki hvað gerist. Ég veit ekki hvort ssamningnum yrði sagt upp. En ég veit samt svo mikið að það eru þessi þrjú smáríki í EES-samningnum og það er ekki mikill áhugi hjá ESB á honum. Þegar þessi samningur var gerður þá voru sjö ríki og sum þeirra fjölmenn. Í ESB voru 15 ríki. Það var miklu meira jafnræði. Það er enginn áhugi á þessum samningi hjá ESB. Bara enginn, svo mikið veit ég. En ég veit auðvitað ekki hvað gerist.

Lykilatriðið í þessu er að ég vil ekki setja það í uppnám, hugsanlega vondar afleiðingar af því, ef ég þarf þess ekki, ef það er ekkert í orkupakkanum sem veldur mér áhyggjum. Ef það væri eitthvað sem ylli mér stórkostlegum áhyggjum, ég hefði áhyggjur af því að við værum að missa yfirráðin yfir orkuauðlindunum, yfir eignarhaldinu, skyldum okkar til að dreifa þessu eða eitthvað slíkt, þá væri ég alveg tilbúinn að setja hann í uppnám. Algerlega, bara í svakalega mikið uppnám. En ég er ekki þar. Og ég er ekki svona laginn við að finna út úr því að það sé hætta kringum þriðja orkupakkann. Ég get ekkert lesið út úr því þannig. Þess vegna er ég ekki á móti honum. En ég er ekki sérstakur stuðningsmaður hans. Ég er ekki þannig að ég vilji endilega fá orkupakka og jafnvel fleiri. Það væri gott ef það væri búið (Forseti hringir.) með orkupakkana. En því miður verður það ekki þannig. En við skoðum þann næsta.