150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:16]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil spyrja hv. þingmann út í framlög til sjúkrahúsþjónustu en á bls. 297 í fjárlagafrumvarpinu er ágætismynd sem sýnir hvernig staðan er. Það eru bundin útgjöld, það eru laun og verðlagsbætur og síðan er útgjaldasvigrúm sem er upp á rúma 3 milljarða og svo í greinargerð er gert ráð fyrir að meginhluti framlagsins sé til byggingar spítala við Hringbraut. Aðhaldskrafa er upp á 528 millj. kr. og þarna eru sjúkrahúsin undir, Landspítalinn auðvitað að langstærstum hluta en síðan sjúkrahúsið á Akureyri. Nú er það svo að allar líkur eru á því að Landspítalinn fari inn í árið 2020 með 4 milljarða kr. halla. Til viðbótar gerir ríkisstjórnin kröfur um aðhald, ríkisstjórnin sem ætlaði að gera svo afskaplega vel í heilbrigðismálum. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji forsvaranlegt að senda frumvarpið svona umbúið til afgreiðslu eða hvort hann geri sér vonir um að gera þarna á breytingar.