150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:36]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Nei, þetta eru loforð sem við getum staðið við. Ef fer á verri veg, ef þessar horfur raungerast að einhverju marki, þá höfum við svigrúm til að bregðast við. Við ætlum í þessu frumvarpi að skila ríkissjóði í jafnvægi svo að við horfum áfram til sjálfbærni ríkisfjármála, og við höfum þrátt fyrir allt svigrúm til að gefa meira eftir en þann afgang sem þegar er fyrirhugað að gefa eftir. Þetta tengist því að stefnt er að því að opinber fjárfesting verði meiri en atvinnuvegafjárfestingin.

Ég er sammála öllu sem hv. þingmaður kom inn á, við eigum að horfa á þetta og hafa alltaf örlitlar áhyggjur af því hvernig þróunin er í byggingariðnaði, ferðaþjónustu og þessum atvinnugreinum upp á eftirspurnarhliðina. Þess ber að geta að ef innflutningur dregst saman þá verður viðskiptajöfnuðurinn hagstæðari. (Forseti hringir.) Þetta er flókið samspil en við höfum sannarlega (Forseti hringir.) breytt stefnunni í þá veru og gert þær áætlanir sem liggja til grundvallar sem gefa okkur færi á því að mæta þessari óvissu.