150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innleggið í þessa umræðu. Það skiptir miklu að við ræðum um stöðu þeirra sem minnst hafa og hvað verið er að gera til að bæta hana, bæði með skattalegum úrræðum en líka víða í velferðarþjónustu og heilbrigðisþjónustu. Það er komið inn á mikilvægi þess að við styðjum við heilbrigðisstofnanir, bæði ríkisreknar og þær sem starfa á grundvelli sjálfseignarfyrirkomulags eins og á við um SÁÁ og undir það get ég tekið að þessar stofnanir gegna mikilvægu hlutverki og við þurfum að fylgjast með því hvernig þeim er gert kleift að sinna því hlutverki.

Mig langar til að koma aðeins inn á orð hv. þingmanns um örorkulífeyrisþega og hvort það séu yfir höfuð margir örorkulífeyrisþegar á því tekjubili sem við erum hér að ræða. Hv. þingmaður notaði orðalagið að þeir væru teljandi á fingrum annarrar handar eða eitthvað því um líkt. Ég veit að það var ekki meint bókstaflega. Það var gefið í skyn að þeir væru ekki svo margir. Ef við skoðum sérstaklega hversu margir örorkulífeyrisþegar telja fram skattstofna á bilinu 300.000–350.000 eru það rúmlega 3.300 manns. Þetta eru ekki litlir hópar, þeir telja í þúsundum. Staðreyndin er sú að þegar við tökum sérstaklega til skoðunar til hverra við erum að teygja okkur með skattalækkuninni þar sem hún nær hámarki við 325.000 kr. kemur í ljós að þar eru fjölmennir hópar öryrkja, þar eru fjölmennir hópar ellilífeyrisþega og þar eru að sjálfsögðu, eins og við vitum, margir á lágmarkslaunum en á þessu bili, frá 300.000–350.000 kr., (Forseti hringir.) er fjöldinn vel yfir 3.000.