150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er langt frá því að ég hafi viljað lenda í orðaskaki við hv. þingmann um að það bæri að fara vel með hverja krónu, að við þyrftum örugglega að gæta að því að útgjaldavöxturinn yrði ekki of mikill á sviðum þar sem árangur væri ekki að nást í samræmi við framlögin. Ég er mikill talsmaður þess að nú séu að renna upp þeir tímar að við þurfum að auka skilvirkni, hagkvæmni, leita leiða til að gera það t.d. með nýrri tækni, meiri úttektum. Ég er mikill talsmaður þess að þingið sé betur í færum til að veita framkvæmdarvaldinu aðhald um þá þætti, að við styrkjum nefndasviðið til að sinna því o.s.frv.

Varðandi bankana er ég mjög sammála hv. þingmanni og er með nákvæmlega sömu sýn á það að við eigum að losa um þetta eignarhald. Það mun opna tækifæri til að bæta enn frekar í innviðafjárfestingar. Sú umræða er eftir.

Það sem mér finnst mikilvægt að halda til haga varðandi hagspárnar og forsendurnar er að við erum alltaf að tala um að við gerum hluti að gefnum tilteknum forsendum. Ef forsendurnar breytast þá hljótum við að vera sammála um að það leiði til einhverrar annarrar niðurstöðu. (Forseti hringir.) Maður kemst ekki einhverja ákveðna leið ef maður lendir skyndilega í umferðaröngþveiti, en þá er það í sjálfu sér ekki vandamál að maður sagðist ætla að koma, að gefnum forsendum um að það væri ekki umferðaröngþveiti.