150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:32]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Það gleður mig að ég og hæstv. fjármálaráðherra séum sammála um að fara þurfi vel með opinbert fé. Mér hefur nefnilega óað dálítið við málgleði Sjálfstæðismanna um útgjaldaaukningu í tíð þessarar ríkisstjórnar en vonandi hillir undir endann á því. Það helgast ekki af neinni mannvonsku eða að við í Viðreisn viljum ekki sinna vel þeim mikilvægu málaflokkum sem undir liggja. Það er bara svo mikilvægt að við gætum alltaf að aðhaldi í ríkisrekstri til þess að við missum ekki tökin á ríkisfjármálunum, eins og ég fullyrði að núverandi ríkisstjórn sé að gera. Útgjaldavöxturinn er einfaldlega kominn úr böndunum og við sjáum í afkomuspá þessa árs að hallinn verður langt umfram það sem að var stefnt. Það er kannski kjarni máls þegar við tölum um það óvissusvigrúm sem er í fjárlagafrumvarpinu og þá fjárlögum fyrir yfirstandandi ár. Það er óvissusvigrúm. Það er ekki svigrúm til að mæta þróun sem við getum séð fyrir. Þessa þróun fyrir næsta ár getum við einfaldlega séð fyrir. Við getum ekki gengið út frá því fyrir fram að fara af stað með allt of bjartsýnar áætlanir og ætla svo að nota óvissusvigrúmið til að mæta því sem við máttum alveg vita (Forseti hringir.) og munum væntanlega vita í nóvember þegar ný hagspá kemur. Það er ekki til þess sem óvissusvigrúmið var sett.