150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:53]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni hans andsvar og skal eftir fremsta megni reyna að svara spurningum. Ég er almennt séð mjög ánægður með hvar við stöndum varðandi innleiðingarferlið og hvernig við látum þessa löggjöf virka. Við erum eitt fárra ríkja sem hafa tekið þessa löggjöf upp og ég var að rekja það í ræðu minni að við erum farin að sjá afurðir hennar og þá fyrst og fremst í þeirri mynd að við erum komin, að mínu viti, með miklu traustari tök á beitingu ríkisfjármála.

Það eru til sögur, og maður þarf ekki að lesa mörg ár aftur í tímann, þar sem við getum séð að mun meiri lausatök voru á rekstri ríkissjóðs en við höfum séð undanfarin ár, sirka síðustu tíu ár, þar sem við vorum að ganga í gegnum mjög óeðlilega tíma. Þannig að við erum almennt sátt við innleiðinguna og hvernig við erum að beita þessum lögum. Hv. þingmaður ræðir mikið um kostnaðarmat og kostnaðargreiningar. Við getum örugglega fikrað okkur lengra fram eftir veginum í þeim efnum og metið áhrifin, kostnaðinn. En einhvers staðar þarf að slá utan um það ramma þannig að þetta verði okkur að einhverju gagni.

Um innviðaskuldir höfum við hv. þingmaður oft rætt í tengslum við fjármál ríkisins, um innviðaskuldir sem helgast af því að við erum ekki að halda við vegakerfi og öðrum innviðum. Það er einfaldlega pólitíski veruleikinn okkar að við getum líka litið á það sem ákveðnar skuldir sem við höfum verið að greiða af undanfarið með því að bæta fjármunum inn í heilbrigðiskerfið og almenna félagskerfið okkar. Það hefur verið áherslan. Ég get hins vegar alveg sagt úr þessum ræðustól að mér finnst áherslan líka vera komin á vegi, brýr, flugvelli og aðra slíka þætti sem eru þessir efnahagslegu innviðir okkar sem þurfa að standa til lengri tíma.

En svo að maður segi það enn og aftur í þessum ræðustól: Við fórum í gegnum næstum tíu ár af kyrrstöðu í kjölfar atvika sem við þurfum ekki að rifja upp hér.