150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:57]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni seinna andsvar hans og ég vil bara segja: Ónei, ónei. Það gerðist ekkert af sjálfu sér að við komumst í þessa stöðu. Það gerðist vegna þess að við höfðum fókusinn á að laga skuldastöðu ríkissjóðs. Við höfum breytt vaxtagreiðslum ríkissjóðs í fjárfestingar í sjúkrahúsi og vegum í vaxandi mæli. Við erum komin í 3,8% af landsframleiðslu í opinbera fjárfestingu. Við höfum farið ofar. Við þurfum að gera betur en við erum, eins og ég sagði í minni ræðu, að gera þetta í styrkleika en ekki veikleika. Það þurfti sterk bein til að halda þannig á málum að við værum ekki að nota þá miklu fjármuni sem t.d. voru losaðir með losun fjármagnshafta til að þenja út rekstur ríkisins. En við vorum hins vegar að bæta í heilbrigðiskerfið, í menntakerfið, til þess að laga það sem við þurftum að bæta eftir samdrátt liðinna ára og það höfum við gert. Það hefur verið forgangsatriði og ég held að það hafi ekki þurft mikil og flókin excel-skjöl til að sjá að sú forgangsröðun var einfaldlega rétt og hefur staðið með okkur.

Að öðru leyti vil ég segja í tilefni fyrri fyrirspurnar hv. þingmanns, af því að ég gleymdi að nefna það, um innleiðinguna og allt það ferli: Það sem mér finnst aftur á móti vanta og við þurfum að gera betur, og við gerum betur í sameiningu í vinnu í hv. fjárlaganefnd, ég og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, er að við þurfum að taka betur utan um eftirlitshlutverk okkar. Við þurfum að vera markvissari í því þegar við fáum þriggja mánaða uppgjör ríkissjóðs að taka betur utan um þá liði sem sýna skekkju, sama í hvora átt það er, og reyna að afla skýringa og grípa til eðlilegra viðbragða. Okkur tókst þetta ágætlega sumarið 2017 þar sem við tókum einn málaflokk sérstaklega fyrir í fjárlaganefnd og grófum okkur til botns í orsökum og afleiðingum í þeim efnum. Ég rek það ekki nánar hér.