150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:00]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu. Ég hefði gjarnan viljað spyrja hv. þingmann aðeins út í kolefnisgjaldið. Nú á að fara að hækka það um 10% og hefur það hækkað umtalsvert á kjörtímabilinu, þ.e. í tíð þessarar ríkisstjórnar. Við í Miðflokknum teljum að þessum skatti, þessari gjaldtöku, sé ekki jafnað niður á landsmenn með sanngjörnum hætti og bitnar þá tiltölulega verr á landsbyggðinni. Þetta þýðir hækkun á bensín- og dísillítrann. Í dag eru þetta u.þ.b. 12–13 kr. og svo kemur 10% hækkun ofan á það í þessu frumvarpi. Einnig hefur komið fram, og ég hef nefnt það í ræðustól, að umhverfisráðuneytið hefur sagt að ekki sé hægt að segja til um hvort árangur sé af þessari gjaldheimtu. Mig langaði að fá svör frá hv. þingmanni eða hans álit á því hvað þetta gjald hefur hækkað mikið og hvernig það horfi við honum sem landsbyggðarþingmanni. Hann þekkir t.d. til í landbúnaðinum. Ég spyr hvort hann sjái fyrir sér að þetta komi ekki til með að hafa neikvæð áhrif á dreifðari byggðir landsins og hvernig hann sjái fyrir sér að þessu sé þá mætt. Nú hefur t.d. verið talað um að þetta sé liður í orkuskiptum, liður í því að að fólk skipti yfir í rafmagnsbíla. Nú er töluvert erfiðara um vik með það þegar kemur að landsbyggðinni og sérstaklega landbúnaðinum. Það væri fróðlegt að fá skoðun hv. þingmanns á þessu.